- Advertisement -

Kvótinn: Til varnar byggðum eða ekki?

Fréttaskýring „Deilurnar snúast alltaf um þessa lykilspurningu: Á fiskveiðistjórnarkerfið að þjóna óarðbærum rekstri til að verja störf eða virka sem hvati til að auka framleiðni og skapa hámarks afrakstur og stuðla þannig að almennum lífskjarabótum?“ Svona skrifar fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Þorsteinn Pálsson í helgarblað Fréttablaðsins að þessu sinni.

Fyrir fáum vikum sagði forsætisráðherrann, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þetta, í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni.

„Ég tel mikilvægt að fiskveiðistjórnunarkerfið sé til þess fallið að verja byggðirnar, það er að segja að ekki verði til staðar sú hætta að atvinnustig heilu landshlutanna hrynji vegna tilfæringa í greininni. Ég veit að sjávarútvegsráðherrann leggur mikið upp úr við endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins. Það er mikilvægt fyrir samfélagið allt ekki bara þær byggðir sem yrðu illa úti, því allt helst þetta í hendur.“

Kveiktu nýja elda

Þorsteinn skrifaði einnig: „Hagræðingaraðgerðir sjávarútvegsfyrirtækisins Vísis á úthallandi vetri kveiktu nýja elda.“

Og áfram með Þorstein: „Í flestum fiskveiðiríkjum er sjávarútvegurinn aukabúgrein sem skiptir ekki sköpum fyrir þjóðarbúskapinn. Við slíkar aðstæður er algengt að menn noti stjórnkerfi fiskveiða til að verja störf án tillits til arðsemi. Þá þurfa aðrar atvinnugreinar að skila framleiðniaukningunni sem stendur undir framförum og bættum kjörum. Hér er þessu öfugt farið.“

Um fyrirhugaðar aðgerðir Vísis, sagði Sigmundur Davíð í sama þætti:

„Í öllu falli er ljóst að ef þetta verður, verður það mikið högg fyrir þessi byggðarlög að það getur kallað á sérstakt inngrip stjórnvalda.“

„Eftir kerfisbreytinguna í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar varð sjávarútvegurinn eina atvinnugreinin sem er fyllilega samkeppnisfær í alþjóðlegum samanburði varðandi framleiðni. Það merkir að minnki framleiðni sjávarútvegsins versna lífskjör allrar þjóðarinnar. Fyrir þá sök er svigrúmið til félagslegra aðgerða og sérhagsmunagæslu í sjávarútveginum takmarkað. Kerfisvandinn er sá að aðrar greinar megna ekki að standa undir slíkum kostnaði,“ skrifar Þorsteinn.

Ríkið taki aukinn hlut

Sigurður_Ingi_Jóhannsson-688x1024Og sjávarútvegsráðherrann, Sigurður Ingi Jóhannsson, sagði þetta: „Hvernig ætlar atvinnugreinin, sjávarútvegurinn, útgerðin að spila með í þessu. Ef þetta verður eingöngu á hendi ríkisins að þá þarf ríkið auðvitað að hafa úr einhverju að spila. Þá gæti verið að við þyrftum að taka aukinn hlut í hlut ríkisins.“

Og Þorsteinn skrifar: „Viðbrögð sjávarútvegsráðherra gagnvart þeim erfiðleikum sem fylgja hagræðingaraðgerðum bera vott um að hann hefur enga skýra sýn á hvernig hann vill að sjávarútvegurinn byggist upp og þróist með tilliti til heildarhagsmuna þjóðarinnar. Populíska leiðin er léttari. Hún felur í sér að verja störf þótt þau séu ekki arðbær. Svo geta aðrir glímt við efnahagslegu afleiðingarnar.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: