- Advertisement -

Launamál forstjóra – ábyrgð lífeyrissjóða

Örn Pálsson í sjónvarpsviðtali.

Gildi lífeyrissjóður er þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins og námu eignir hans um síðustu áramót 517 milljörðum.  Fjölmargir sjómenn og aðilar tengdir sjávarútvegi eru greiðendur í Gildi enda sjóðurinn afurð samruna Lífeyrissjóðs sjómanna og Lífeyrissjóðs Framsýnar í júní 2005.

Öldurót

Undirritaður hefur í gegnum tíðina mætt á ársfundi Gildis sem sjóðfélagi, framkvæmdastjóri LS og meðlimur í fulltrúaráði sjóðsins.  Á fundunum hef ég flutt tillögur til breytinga á samþykktum sjóðsins og almenns eðilis, auk þess að leggja fram fjölmargar fyrirspurnir sem lúta að starfsemi hans.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Að undanförnu hefur ríkt mikið öldurót um starfskjör forstjóra stórra fyrirtækja hér á landi þar sem lífeyrissjóðir eru helstu eigendur.  Forsvarsmenn stéttarfélaga hafa gagnrýnt og sagt þau úr hófi.  Undirritaður er þeim sammála.  En hvað er til ráða?  Það hélt ég vera einfalt mál.  Tillöguna flutti ég árið 2014:

Ársfundur Gildis lífeyrissjóðs samþykkir að á næsta stjórnarfundi Haga muni fulltrúi Gildis í stjórn fyrirtækisins bera fram eftirfarandi tillögu:

„Stjórn Haga samþykkir að ráðningasamningur við forstjóra fyrirtækisins verði tekinn til endurskoðunar þannig að mánaðarleg laun, hlunnindi og árangurstengdar þóknanir fari ekki umfram 3,0 milljónir.  Jafnframt verði ráðningasamningar annarra stjórnenda fyrirtækisins teknir til endurskoðunar þar sem sambærilegar greiðslur verði innan hóflegra marka.“

Tillagan var í anda við þágildandi samskipta og siðareglur stjórnar og starfsmanna Gildis.

„Sjóðurinn fjárfestir í samfélagslega ábyrgum fyrirtækjum sem fylgja lögum og reglum samfélagsins og viðurkenndum viðmiðunum um góða stjórnarhætti og viðskiptasiðferði. Sjóðurinn fjárfestir ekki í fyrirtækjum sem ofbjóða siðferðisvitund almennings með ósanngjarnri framkomu gagnvart starfsfólki s.s. varðandi kjör og stjórnunaraðferðir eða með óhófi í launamálum stjórnenda sem og öðrum rekstrarþáttum. Stjórn tekur afstöðu til slíkra mála sem upp koma og ákveður hvort selja eigi hlut sjóðsins í ljósi þeirra viðbragða sem athugasemdir við óeðlilega starfshætti fá.“

Ástæða þess að Hagar urðu fyrir valinu var stór eignarhlutur sjóðsins – 10,4% – í fyrirtækinu og að mánaðarlegar greiðslur til forstjóra þess starfsárið 2012-2013 voru 6 milljónir.  Tillögunni var ætlað að skerpa áherslur sjóðsins þar sem óumdeilt var að slík ofurlaun væru ekki innan þess siðferðisramma sem Gildi hafði sett sér.

Afdrif tillögunnar varð sú að samþykkt var að vísa henni til stjórnar, sem tæki hana til efnislegrar meðferðar í samræmi við og samkvæmt samskipta- og siðareglum hluthafastefnu sjóðsins.  Þetta taldi ég vera skýr skilaboð til stjórnar.

Þögulir fulltrúar

Á tilvitnuðum fundi kom mér á óvart hversu þögulir fulltrúar eigenda sjóðsins voru þegar tillagan var rædd.  Ekki síst þ.s. lægstu taxtar Eflingar á þeim tíma voru 201 þúsund í mánaðarlaun þrátt fyrir að þá væri nýbúið að undirrita kjarasamning sem fól í sér 2,8% hækkun.

Á fundinum var tekist á um tillöguna.  Vilji stjórnarformanns, sem þá var fulltrúi atvinnurekenda, var að við atkvæðagreiðslu yrði grein 5.4. í samþykktum sjóðsins höfð til hliðsjónar.  Við lestur hennar rann upp fyrir mér sú staðreynd að eigendur sjóðsins gætu ekki fengið neitt samþykkt sem andstaða var við hjá atvinnurekendum.  Greinin er óbreytt í dag og orðast svo:

„Við atkvæðagreiðslu ræður afl atkvæða nema öðruvísi sé ákveðið í samþykktum þessum.  Þó er heimilt að óska eftir skiptri atkvæðagreiðslu, þannig að fulltrúar samtaka atvinnurekenda og stéttarfélaga greiða atkvæði hvor í sínu lagi og þarf þá tilskilinn meirihluta í báðum hlutum fulltrúaráðsins svo að samþykkt sé lögmæt.“

Rétt er að geta þess að á ársfundi hafa þeir einir atkvæðisrétt sem eru í fulltrúaráði sem skipað er að jöfnu fulltrúum launþega (eigenda sjóðsins) og atvinnurekenda alls 160 aðilum.

Eins og áður sagði kom ekki til þess að atkvæðagreiðsla færi fram þar sem formaðurinn dró tillöguna til baka eftir málsmeðferðartillögu fundarstjóra.

Hvað hefur áunnist?

En hvað hefur áunnist kann einhver að spyrja.  Vera kann að einstaka sjóðir hafi haldið aftur af sér að fjárfesta í fyrirtækjum sem reka ofurlaunastefnu hæstráðenda og árlegar launahækkanir þeirra stöðvaðar.  Það breytir því þó ekki að forstjórar fyrirtækja sem eru í ráðandi eigu launþega í gegnum lífeyrissjóði eru enn á launum sem ofbjóða siðferðisvitund almennings.  Samanlögð laun og hlunnindi forstjóra Eimskipa og N1 árið 2017 og Haga (1. mars 2016 – 28. febr. 2017) voru 249 milljónir.  Til samanburðar voru árslaun Runar Holleweik forstjóra stærstu matvörukeðju Noregs, Norgesgruppen, 74 milljónir á árinu 2016, hagnaður fyrirtækisins það ár nam 32 milljörðum.

Það er mín skoðun að stærstu lífeyrissjóðir landsins ættu að sameinast í tillögu innan stjórna fyrirtækjanna sem tekur á launum yfirmanna.  Náist ekki samkomulag við þá er fátt annað í stöðunni en að skipta um stjórnendur og ráða nýja á góðum launum.

Höfundur er  framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

 

 

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: