- Advertisement -

Kvikmyndaleikarinn í Hvíta húsinu

Sögupersóna Tveir atburðir sem urðu hér á landi á öldinni sem leið vöktu meiri athygli umheimsins en aðrir, heimsmeistaraeinvígið í skák sumarið 1972 og fundur Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta og Mikhails Gorbatsjov Sovétleiðtoga haustið 1988. Í báðum tilvikum áttust við fulltrúar risaveldanna tveggja í austri og vestri og í báðum tilvikum höfðu þessir fundir mikil áhrif, þótt á ólíkum sviðum væri. Á leiðtogafundinum í Höfða var tekist á um brýnustu hagsmunamál mannkyns, afvopnun og stöðvun vígbúnaðarkapphlaupsins, sem hafði staðið látlítið í fjóra áratugi. Við viljum trúa því, Íslendingar, að fundurinn hafi markað tímamót í þessum efnum, en hitt skipti þó ekki minna máli fyrir framþróun heimsmálanna að á heimaslóðum hafði Gorbatsjov þegar hrundið af stað atburðarás sem leiddi til þess að veldi Sovétríkjanna í Austur-Evrópu hrundi á næstu tveimur árum og áður en fjögur ár voru liðin frá fundinum í Höfða heyrðu Sovétríkin sögunni til.

Margir vildu þakka þetta stefnu Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta, ekki síður en Gorbatsjov, en aðrir gerðu minna úr framlagi hans. Hér verður enginn dómur á það lagður, en hitt er víst að hér landi nutu Gorbatsjov og Raisa, kona hans, mun meiri vinsælda en Reagan. Á þessum árum var í tísku hjá ákveðnum hópum á Vesturlöndum að líta á þennan forseta Bandaríkjanna sem hálfgerðan kjána og mörgum stóð ógn af stefnu hans í varnarmálum, ekki síst „stjörnustríðsáætluninni“ svonefndu. Víst er að í fjölmiðlum var framkoma Ronalds Reagan oft óvenjuleg og hugnaðist Evrópumönnum lítt. Hann var hins vegar enginn kjáni og nú um stundir halda margir því fram, að hann sé vanmetnasti Bandaríkjaforsetinn á 20. öldinni.

Ronald Reagan fæddist árið 1911. Hann starfaði fyrst sem íþróttafréttaritari, en lagði síðan stund á kvikmyndaleik og lék fyrsta hlutverk sitt árið 1937. Hann varð þekktur fyrir ýmis minni háttar hlutverk og árið 1947 varð hann formaður Samtaka kvikmyndaleikara. Hann fékk snemma áhuga á stjórnmálum og reyndi fyrir sér á þeim vettvangi, en hlaut lengi vel lítinn frama. Á landsþingi Repúblikanaflokksins árið 1964 flutti hann ræðu til stuðnings Barry Goldwater, sem var útnefndur forsetaframbjóðandi flokksins, og er hún yfirleitt talin marka upphaf eiginlegs stjórnmálaferils hans. Hann var kosinn ríkisstjóri í Kaliforníu árið 1967 og hafði það starf með höndum til 1975. Hann reyndi að fá útnefningu sem forsetaframbjóðandi flokks síns 1968, 1972 og 1976, en hlaut ekki brautargengi fyrr en 1980. Í kosningunum sem á eftir fóru sigraði hann Jimmy Carter forseta og varð forseti árið 1981, sjötugur að aldri.

Reagan var einn helsti forvígismaður frjálshyggjustefnunnar í bandarískum stjórnmálum. Hann beitti sér fyrir skattalækkunum, niðurskurði velferðarkerfisins og dró mjög úr opinberum afskiptum af efnahagsmálum. Með því hugðist hann blása nýju lífi í efnahag Bandaríkjanna. Það tókst, en öðru fremur vegna þess að Reagan jók mjög vígbúnað og fjármagnaði þær framkvæmdir með lántökum. Tilgangurinn með auknum vígbúnaði var að styrkja stöðu Bandaríkjanna í vígbúnaðarkapphlaupi risaveldanna, en Reagan var stækur andkommúnisti, kallaði Sovétríkin „Heimsveldi hins illa“ og beitti hernaðarafli Bandaríkjanna gegn vinstrisinnuðum stjórnum í smáríkjum á borð við Grenada og Níkaragúa.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ronald Reagan þótti ekki sérlega mikill stjórnmálahugsuður eða skörungur, en hann naut löngum mikilla vinsælda í Bandaríkjunum. Það átti hann öðru fremur því að þakka að hann kom öðrum stjórnmálamönnum betur fyrir í fjölmiðlum, einkum sjónvarpi. Hann þótti einkar hlýr og þægilegur í umgengni en var oft eins og utan við sig og sagði þá eitt og annað sem hlegið var að. „En gaman að hitta þig aftur, Paul,“ sagði hann við þekktan breskan sagnfræðing og rithöfund þegar þeir hittust í fyrsta skipti og er það aðeins eitt dæmi um það hve viðutan hann gat verið. Sögur sem sagðar voru af honum og áttu að gera hann hlægilegan urðu hins vegar margar til þess að auka vinsældir hans og gera hann mannlegri í augum fólks.

Eftir að Reagan lét af forsetaembætti fluttist hann til Kaliforníu þar sem hann bjó til dauðadags árið 2004. Síðustu æviárin þjáðist hann af parkinsonsveiki.

 (Greinin birtist áður í Mannlífi árið 2008. Höfundur er Jón Þ. Þór sagnfræðingur).

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: