- Advertisement -

„Líkamleg hvörf“ í bandarískum framúrstefnukvikmyndum

Menning Ara Osterweil, kvikmyndafræðingur við McGill Háskóla í Montreal, heldur fyrirlestur í Hafnarhúsi en hann er unninn í samvinnu við rannsóknarstofu um framúrstefnu við Háskóla Íslands.

Í fyrirlestrinum bregður Ara Osterweil upp mynd af þeim „líkamlegu hvörfum“ sem greina má í bandarískum framúrstefnukvikmyndum á 7. áratugnum og beinir sjónum að nokkrum lykilkvikmyndum tímabilsins. Nýútkomið rit Osterweil, Flesh Cinema: The Corporeal Turn in American Avant-Garde Film (Manchester University Press, 2014) kannar nýstárlega framsetningu líkamans í tilraunakvikmyndum 7. og 8. áratugarins. Þar er beint sjónum að kynferðislega opinskáum kvikmyndum Andys Warhol, Jacks Smith, Barböru Rubin, Stans Brakhage, Carolee Schneemann og Yoko Ono. Þar er einnig varpað ljósi á hvernig tilraunakvikmyndin breytti ekki aðeins bandarískri sjónmenningu, heldur einnig lífi höfunda þeirra. Flesh Cinema tengir þessar kvikmyndir við réttinda- og kynfrelsisbaráttu tímabilsins og kannar með hvaða hætti stjórnmála- og þjóðfélagsumræða ljær þeim stöðugt nýja merkingu.

Ara Osterweil er rithöfundur, kvikmyndafræðingur og málari sem býr í Montreal og New York. Osterweil er lektor við enskudeild McGill-háskóla, þar sem hún kennir kvikmynda- og menningarfræði. Auk ritsins Flesh Cinema hefur hún birt fjölda greina í tímaritum á borð við Camera Obscura, Film Quarterly, Frameworks, The Brooklyn Rail og Millennium Film Journal, auk þess sem greinar hennar hafa birst í greinasöfnunum Porn Studies, Warhol in Ten Takes og Women’s Experimental Cinema. Hún hefur hlotið styrk til ritstarfa frá Creative Capital / The Warhol Foundation og rannsóknarstyrk frá Rannsóknarráði félags- og hugvísinda í Kanada (SSHRC Insight Grant). Hún vinnur nú að ritun fræðibókar með heitinu The Pedophilic Imagination: Children, Sex, Movies og skáldsögu með heitinu Last Rites.

Rannsóknarstofa um framúrstefnu er þverfaglegt rannsóknanet sem helgað er ólíkum birtingarmyndum framúrstefnu í bókmenntum og listum frá upphafi 20. aldar til samtímans.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Fyrirlesturinn hefst kl. 20 og fer fram á ensku. Aðgangur er ókeypis.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: