- Advertisement -

Lítil saga af Bubba Morthens

Ég hef lengi þekkt til Bubba Morthens. Vorum nágrannar á unglingsárunum. Vorum snemma málkunnugir og kannski má ég kalla Bubba kunningja minn.

Jæja, þegar Bubbi hafði sent frá sér Konuplötuna bjó ég í Ólafsvík. Tónleikar voru auglýstir í gamla félagsheimilinu. Kunningi minn, eitthvað lítið eldri en ég, spurði hvort ég ætlaði á Bubbatónleikana. Hann spurði næst hvort hann mætti verða mér samferða.

Við mættum á tónleikana. Sem voru frábærir. Að þeim loknum keypti ég plötuna og hinn keypti kassetuna. Inga, fyrrverandi kona Bubba, seldi plöturnar og kassetturnar.

Þegar við vorum að fara út sáum við langa biðröð á neðri hæðinni. „Ætlið þið ekki að láta Bubba skrifa á plöturnar,“ kallaði einhver í röðinni. Ég sagði nei, en kunningi minn sagði já. Við förum í röðina.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þegar við loks komum inn í herbergið þar sem Bubbi sat við borð og áritaði, leit hann ekki upp. Var að sýsla eitthvað með hluti á borðinu.

Þegar hann leit upp og sá mig, spratt hann á fætur og faðmaði mig. Spurði frétta af mér og Agli bróður, sem hafði verið bekkjarfélagi Bubba í Vogaskóla.

Svo tók Bubbi eftir kunningja mín gekk til hans og spurði hann af nafni. Bubbi sýndi manninum mikinn áhuga, talaði við hann um sjómennsku, um Ólafsvík og hvað eina.

Þegar við höfðum kvatt Bubba og gengum út í myrkrið sagði kunningi minn ekki neitt í dágóða stund. Svo sagði hann: „Þvílíkur maður sem Bubbi er.“

Nokkru seinna hitti ég eiginkonu mannsins. Hún spurði mig: „Sigurjón, hvað gerðist eiginlega á Bubbatónleikunum.“ Og bætti við að maðurinn sinn hefði breyst þetta kvöld. „Hann spilar bara Bubba, talar nánast ekki um annað og hann kann textana utanbókar.“

Ég hef ekki sagt Bubba þessa sögu en eitt er víst, að þetta kvöld í Ólafsvík gaf Bubbi mikið af sér. Stóra gjöf. Og það sem meira er, þetta er bara eitt dæmi um manninn Bubba.

Ég hef boðið ungum aðdáenda Bubba í Hörpu á Þorláksmessu. Sá nemur gítarspil. Ég vona að við hittum Bubba og veit að ungi gítarleikarinn mun þá ganga glaður út í myrkrið.

Bubbi á allt gott skilið. Líka heiðurslaun listamanna.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: