- Advertisement -

Loftárásir á stjórnarher Sýrlands: skammtíma sigur eða langtíma árangur?

Meolkorka Mjöll Kristinsdóttir.

Loftárásir Frakka, Bretar og Bandaríkjamanna á rannsóknarstöð, efnavopnageymslu og stjórnstöð efnavopnaframleiðslu í Sýrlandi aðfaranótt 14. apríl var svar við endurteknum efnavopnaárásum stjórnarhers Sýrlands á eigin borgara, sem alþjóðasamfélaginu hafði ekki tekist að stöðva með diplómatískum leiðum. Lögð var áhersla á að árásinni væri ekki beint gegn almennum borgurum. Bæði NATO og ESB hafa lýst yfir stuðningi við aðgerðir vesturveldanna.

Fljótt á litið virðast loftárásirnar því vera vel rökstuddar og tímabærar. Sumir myndu jafnvel segja að slík aðgerð hefði þurft að eiga sér stað mun fyrr. Stjórnarher Sýrlands hafi allt of lengi getað vaðið uppi í skjóli vanrækslu hernaðarlega sterkra ríkja, gagnvart saklausum borgurum landsins. Þó verður að hafa í huga að jafnvel ef tilgangur loftárásanna var réttmætur, þá hefur sagan sýnt að alvarleg og langvarandi stríð geta þróast út frá réttmætum hernaðaraðgerðum.

Nærtækt er að minnast stríðsins í Afghanistan í kjölfar árásar Al-Qaeda á Bandaríkin 11. september 2001. Þjóðir heims sammæltust um réttmæti þeirrar vegferðar ekki síst í ljósi þess að George W Bush, þáverandi forseti Bandaríkjanna hafði áður boðið upp á friðsamlega, diplómatíska lausn: Hann fór framá að Talibanar, sem vörðu bækistöð Al-Qaeda í Afghanistan, myndu gefast upp og afhenda alla leiðtoga hryðjuverkasamtakanna, þar á meðal Osama bin Laden, en Talibanar féllust ekki á það. Bandaríkin hófu þá ‘stríð gegn hryðjuverkum’ með loftárás á bækistöð Al-Qaeda í Afghanistan. Bandaríkin lögðu áherslu á að árásinni væri ekki beint gegn almennum borgurum heldur eingöngu gegn Al-Qaeda og bandamönnum þeirra. Talíbanar voru hraktir frá völdum og ný ríkisstjórn var stofnuð í Kabúl.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta var þó aðeins byrjunin. Talibanar hafa endurheimt mikið af pólitísku áhrifavaldi sínu og stjórna nú afmörkuðum hlutum Afghanistan. Þá hefur ISIS náð að þróast sem ný og alvarleg ógn á landamærum Afghanistan og Pakistan. Árið 2017 tilkynnti Trump að Bandaríkin myndu bæta við 4000 hermönnum í landinu. Nú, sautján árum síðar geysar stríðið enn. Í stuttu máli hefur stríðið leit af sér afmarkaðra sigra fyrir Bandaríkin, en til lengri tíma litið gæti það leitt til pólitísks sigurs Talibana. Heimsveldið Bandaríkin með sinn mikla hernaðarmátt hefur með öðrum orðum ekki náð sigri í hinu fátæka og viðkvæma ríki Afghanistan.

Eigi hið réttmæta markmið og hinar rökstuddu og e.t.v. tímabæru aðgerðir í Sýrlandi að leiða til réttlætis og stöðugleika til langs tíma í stað þess að styrkja ófriðaröflin verður að ígrunda næstu skref í ljósi sögunnar. Sagan sýnir að ekki er hægt að gefa sér að hernaðarmáttur og efnahagslegir yfirburðir leysi upp hvers kyns fyrirstöðu til lengri tíma litið.

 

Melkorka Mjöll Kristinsdóttir.

Höfundur er meistaranemi í Hnattrænum tengslum.


Booking.com

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: