- Advertisement -

Loftslagsáhrif stöðva ekki innfutning matvæla

 

 

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, gekkst fyrir sérstakri umræðu um matvælaframleiðslu og loftslagsmál á Alþingi. Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra úr Bjartri framtíð var til svara.

Silja Dögg sagði meðal annars: „Við Íslendingar þurfum að sýna ábyrgð í verki varðandi hnattræn áhrif loftslagsbreytinga og laga okkar samfélag að þeim. Langflutningar matvæla valda miklum útblæstri gróðurhúsalofttegunda og því getur aukinn innflutningur matvæla á kostnað innlendrar framleiðslu aðeins aukið loftslagsvána.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Björt Ólafsdóttir svaraði meðal annars svona: „Hvað varðar kolefnisspor af flutningi matvæla verðum við að muna að það verður ekki bæði haldið og sleppt. Við getum t.d. ekki notað loftslagsástæður til að setja takmörk á innflutning matvæla á sama tíma og við viljum geta selt sjávarafurðir okkar, og reyndar landbúnaðarafurðir líka, úr landi. Gleymum því ekki að við erum einn stærsti fiskútflytjandi heims og við flytjum inn kornmeti, ávexti og margvíslega vöru sem við getum ekki aflað heima fyrir. Það er gott að efla vitund neytenda og reyna að draga úr kolefnisspori vöru á öllum stigum, en það væri óraunhæft að reyna að banna innflutning á grunni loftslagsraka.“

Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG í Suðurkjördæmi, sagði meðal annars, að ekki sé hægt að stilla innflutningi á matvælum upp á móti útflutningi sjávarafurða.

Haraldur Benediktsson, bóndi og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók þátt í umræðunni. Hann sagði: „…það voru mér og fleirum mikil vonbrigði að sjá nýgerða búvörusamninga þar sem lítið var fjallað um umhverfismál og lítið var fjallað um loftslagsmál þeim tengdum.“

Ekki er það svo að einungis sé farið með matvæli milli landa. Það gerist líka innanlands. Gunnar I. Guðmundsson Pírati benti á þetta: „ Í íslenskri matvælaframleiðslu höfum við fækkað umtalsvert slátrunar- og urðunarstöðum kjöts. Með hertari reglum um urðun og förgun keyrum við langar leiðir með heila og aðra taugavefi til förgunar. Jafnframt keyrum við langar leiðir með gripi til slátrunar, en margt af þessu er gert í nafni hagræðingar. Með þessum ráðagerðum erum við að hagræða á kostnað umhverfisins. Við þurfum að taka þessi málefni til endurskoðunar. Við þurfum að stytta vegalengdir sem gripir fara til slátrunar og jafnframt hættulegir vefir til förgunar.“

Gunnar Bragi Sveinsson, Framsóknarflokki og fyrrverandi landbúnaðarráðherra sagði: „Að þessu sögðu er á sama tíma mjög sérkennilegt að heyra það að svo virðist sem ríkisstjórn Íslands ætli sér að stuðla að auknum innflutningi á matvöru til landsins.“ Og að; „Bændur eru tilbúnir til þess að taka á í umhverfismálum. Þeir hafa sýnt það og þeir hafa leitt þá vinnu um áraraðir.“

„Landbúnaðurinn getur gert betur og við þurfum í formi þess styrkjakerfis sem ríkir um landbúnað á Íslandi, við þurfum að beina sjónum okkar þangað. Það væru réttir hvatar og góð leið til að nýta almannafé, sannarlega,“ sagði Björt Ólafsdóttir meðal annars í seinni ræðu sinni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: