- Advertisement -

Með óbragð í munni og sorg í hjarta

Natalie Gunnarsdóttir á Austurvelli í dag:

Kæra samkoma.

Ég stend hér frammi fyrir ykkur með óbragð í munni og sorg í hjarta. Sorg yfir því að við ættum að vera að fagna því að það eru hundrað ár frá því að við fengum fullveldi. Þess í stað stöndum við á Austurvelli og mótmælum. Í dag á sjálfan fullveldisdaginn stöndum við frammi fyrir því að spyrja okkur hvernig samfélagi viljum við búa í og fyrir hvað stöndum við sem þjóð?

Ég er alin upp af ömmu minni og afa á eins íslensku heimili og það gerist. Íslenskt samfélag er það eina sem ég þekki og mér þykir óendanlega vænt um það. Hjá mér voru innprentuð þau gildi að koma fram við aðra eins og ég vildi að aðrir kæmu fram við mig og bera virðingu fyrir náunganum svo eitthvað sé nefnt. Þetta gerði það að verkum að samkennd mín til samborgara minna er sterk. Ég finn til þegar aðrir þjást og ég virkilega fann til þegar ég las ummæli þingmannanna sex. Ég fann til við að lesa og heyra hvernig þeir kepptust við að gera lítíð úr konum. Ég fann til við að lesa um hvernig þeir veittust að fötluðu fólki og samkynhneigðum. Ég fann til. Það sem gerði útslagið var að þegar innt var eftir svörum birtist fullkomið virðingarleysi og hroki. Siðleysið er slíkt. Þetta eru ekki fyrirmyndir sem hvorki við né börnin okkar viljum.

Okkur er kennt á öllum skólastigum að lifa og fara eftir ákveðnum gildum og siðareglum. Lögð er áhersla á að við ígrundum og spyrjum hvernig manneskjur við viljum vera. Hvernig stendur á því að fólkið í æðstu valdastöðum geti ekki staldrað við og spurt sig þessara sömu spurninga? Ég vil trúa því að samfélagsgildin okkar séu sterkari en þetta. Að við sem samfélag pössum upp á hvert annað og stöndum vörð þegar á okkur er brotið. Að við tökum upp hanskann fyrir náungann.

Það er ótrúlega sorglegt að menn með forgjöf í lífinu geti leyft sér að setja sig á stall og ausa úr sér mannhatri með slíkri áfergju að það er leitun á öðru eins. Fólkið sem á að standa vörð um hagsmuni okkar allra. Fólkið sem setur upp brosgrímur þegar á þarf að halda en sýnir svo sitt rétta andlit þegar það heldur að enginn sjái til. Ætlum við endalaust að láta bjóða okkur virðingaleysi og yfirgang eða ætlum við að standa vörð?

Fyrir hundrað árum fengu Íslendingar valdið í hendurnar, valdið til að móta okkar framtíð, því það er jú fólkið sem hefur valdið. Við stöndum á tímamótum. Hvert stefnum við sem samfélag? Hvernig umhverfi viljum við skapa fyrir börnin okkar? Hvernig fyrirmyndir viljum við hafa? Ég vil trúa því að öll viljum við jafnrétti og búa í heilbrigðu samfélagi. Í samfélagi þar sem við eigum ekki á hættu að kjörnir þingmenn verði uppvísir að spillingu, fordómum, ofbeldi og níð. Ég vil trúa því að við séum komin lengra. Hegðunin er svo andfélagsleg og mannfyrirlitningin það mikil að af henni er yfirþyrmandi óþefur. Óþefur sem hverfur ekki fyrr en honum verður svælt út úr Alþingishúsinu.

Ég sem þegn þessa þjóðfélags krefst þess að þetta fólk axli ábyrgð gjörða sinna og segi af sér tafarlaust.

Til hamingju með daginn.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: