- Advertisement -

Að standa í lappirnar

- Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, var gagnrýnin á ríkisstjórnina í ræðu sinni á Alþingi.

Sigurður Ingi Jóhannsson var, gagnrýnin á störf fyrri ríkisstjórnarinnar. Gagnrýni hans á svo sem alveg við um núverandi ríkisstjórn, ríkistjórn sem Sigurður Ingi á að tilheyra.

Hann tók nokkur dæmi

„Þegar farið er yfir það í fljótheitum hvert við stefnum sem þjóðfélag er ekki alveg augljóst hver niðurstaðan er. Það kann að vera að stjórnarmeirihlutinn sé með það á hreinu en ég stórefast um að svo sé. Mig langar að nefna nokkur dæmi:

Á að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu og taka gjald af ferðamönnum — eða ekki? Er verið að einkavæða heilbrigðisþjónustuna — eða ekki? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að fjármagna uppbyggingu samgangna, veggjöld eða ekki? Hversu mikið ætlar ríkisstjórnin að einkavæða í skólakerfinu? Gjaldmiðilsmál; króna eða ekki króna? Hvernig á fjármálakerfið að vera?“

„Þetta eru bara nokkur dæmi um það sem ríkisstjórnin hefur verið að fást við á undanförnum mánuðum en enginn virðist vita hvert beri að stefna. Og reyndar er það ekki bara svo, heldur virðist sem einstaka ráðherra virðist ekki hafa hugmynd um hvert hann stefnir,“ sagði Sigurður Ingi.

„Ég leyfi mér sérstaklega að nefna hæstvirtan heilbrigðisráðherra. Hann kemur af fjöllum þegar rætt er um að verið sé að einkavæða í heilbrigðisþjónustunni, segir lögin óskýr og þar fram eftir götunum. En hver er hans pólitíski vilji? Hvert telur hann heppilegt að stefna? Mér vitanlega hefur það ekki komið fram með skýrum hætti. Það sem hann hefur þó sagt um þetta kom fram í viðtali við ráðherra á dögunum. Þar sagði hann að það væri ekki endilega plottað um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Þar höfum við það. Hann aftekur ekki með öllu að sú sé raunin.

Ég held að það gæti verið ágætt fyrir ráðherra að reyna að átta sig á því fyrr en síðar hvort eitthvað sé að gerast á hans vakt sem hann kærir sig ekki um. Það getur varla talist ofrausn af hálfu manns sem talar um ný vinnubrögð að samtal um aukið einkaframtak í heilbrigðisþjónustu sé tekið við þjóðina, þótt í litlu væri.“

Sigurður Ingi hefur ágæta reynslu af samstafi við Sjálfstæðisflokkinn.

„Sé gengið til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn þarf að hafa afl til að standa í lappirnar. Slíkt afl hefur mér sýnst að viðhengin tvö, Björt framtíð og Viðreisn, hafi ekki. (Hér hefði hæglega getið staðið VG og Framsókn) Viðreisn er útibú frá Sjálfstæðisflokknum, Björt framtíð virðist svo vera orðin útibú frá Viðreisn. Og í ellefu manna ríkisstjórn sitja sex (fimm núna) Sjálfstæðismenn, sem sagt meiri hluti við ríkisstjórnarborðið. Fyrir ekki svo löngu síðan voru níu af þeim sem eru ráðherrar nú í Sjálfstæðisflokknum.“

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: