- Advertisement -

Óviðunandi að þjóðin fái einungis smánargjald fyrir afnot af auðlind sinni

Indriði H. Þorláksson skrifar vandaða grein um veiðigjaldafrumvarpið sem stjórnarflokkarnir leggja allt kapp á að verði að lögum hið bráðasta.

Í lok greinarinnar segir Indriði:

„Það er alls óviðunandi að þjóðin fái einungis smánargjald fyrir afnot af auðlind sinni, nánast ölmusu sem rétt dugar til að greiða þann kostnað sem fylgir því að sjá til þess að auðlindin verði ekki eyðilögð heldur nýtt með hagkvæmum hætti. Við framlagningu frumvarpsins töldu margir þetta atriði þjónkun við hagsmuni útgerðareigenda sem von stæði til að yrði leiðrétt í þinginu. Með framkomnu áliti atvinnuveganefndar er ljóst að hún hefur ekkert lært af sneypuför sinni sl. vor og er slegin þeirri blindu að hlutverk Alþingis sé ekki að gæta almannahags heldur ganga erinda sérhagsmunaafla. Marklaus falsrök um samtímaálagningu eru engin afsökun í því efni og hagsmuni smáútgerða hefði mátt tryggja án þess að færa stórútgerðarmönnum margfalda hagsbót um leið.

Þessi fyrirhugaða jólagjöf til ríkustu þjóðfélagsþegnanna er fordæmingarverð. Sú fjárhæð sem þeim er gefin árlega á næstu árum ef frumvarpið verður óbreytt að lögum er líklega álíka há og það sem til þarf til að standa undir kröfum stéttarfélaganna um hækkun lágmarkslauna. Þótt aumingjagæska íslenskrar alþýðu sé þekkt er ekki víst að örlæti sem þetta eigi sér mikinn hljómgrunn hjá henni. Þess er óskandi að Alþingi sjái að sér og samþykki frumvarpið að öðru leyti en því sem snýr að gjaldhlutfalli veiðigjalda og þau verði fest óbreytt þar til tími hefur verið til að ræða skiptingu auðlindarentunnar með vitrænum hætti og komast að lýðræðislegri niðurstöðu í því efni.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Booking.com

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: