- Advertisement -

Ráðherrar sýna dónaskap trekk í trekk

Þingmenn ósáttir með fjarveru allra ráðherra. Einkum með fjarvistir Bjarna Benediktssonar. „Ég tek bara undir það að mér finnst þetta miður og í raun skil ég ekki afhverju ráðherrar taka ekki þátt, þá sérstaklega fjármálaráðherra, í þessari umræðu,2 sagði starfandi formaður þingflokks VG.

„Mér finnst ótrúlegur dónaskapur og vanvirðing felast í því trekk í trekk að ráðherrar sitji ekki og hlusti á umræðu sem þá varðar,“ sagði Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, þegar þingið ræddi fjármálastefnu næstu fimm ára. Enginn ráðhherranna var viðstaddur umræðuna.

Willum hringi í Bjarna

Logi Einarsson.

„Hæstvirtur fjármála- og efnahagsráðherra er nú reyndar farinn að taka upp þann sið að hunsa lög og ákveða einhliða með tilskipunum með hvaða hætti hann ætlar að láta þingið fjalla um mál og hvenær á að gera það. Mér finnst það ekki minnst brýnt að hann mæti hér í stólinn og hlusti þegar nefndarálitið er hvort sem er meira og minna allt með tilvísunum í hans eigin svör við ábendingum sem beint eru til nefndarmanna. Þannig að ég held að háttvirtur þingmaður Willum Þór Þórsson ætti að hringja í hæstvirtan fjármálaráðherra og biðja hann að koma hingað,“ sagði Logi.

Ágúst Ólafur.

„Ég held að það sé algjör lágmarkskurteisi að fjármálaráðherra sé hérna í salnum að hlusta á þessa umræðu. Hér er um að ræða þingsályktunartillögu þannig að þetta er síðari umræðan. Eftir að þessari umræðu lýkur þá er málinu lokið og því er lokið í fimm ár, því að þessi stefna á að gilda í fimm ár,“ sagði Ágúst Ólafur Ágústsson, flokksfélagi Loga.

Björn Leví spurði einfaldrar spurningar: „Hvar er ríkisstjórnin?“ Hann fékk ekkert svar.

Besti fjármálaráðherra Íslandssögunnar

Þorsteinn Vígundsson.

Þorsteinn Víglundsson var ekki sáttur, ekki frekar en flestir aðrir: „Ég er kannski ekkert hissa á því að hæstvirtur fjármálaráðherra kjósi að vera ekki í salnum þegar verið er að ræða fjármálastefnuna miðað við þær umsagnir sem stefnan fær. Það er hins vegar mjög sérkennilegt þegar við erum að ræða fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar að hér sé ekki einn einasti ráðherra í salnum og sér í lagi að hér sé ekki hæstvirtur fjármálaráðherra og sitji samviskusamlega undir þeim umræðum sem fram eiga að fara.“

Pawel Bartoszek.

Félagi Þorsteins, Pawel Bartoszek kon næstur í pontu og rifjaði upp: „Fyrir ári, þegar umræða um fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar fór fram, sat þáverandi hæstvirtur fjármálaráðherra, besti fjármálaráðherra Íslandssögunnar, Benedikt Jóhannesson, hér í salnum og fylgdist með umræðunni. Hann kom upp í andsvör við þingmenn, níu sinnum alls, fylgdist með og tók þátt í umræðunni. Mér fannst það til fyrirmyndar. Ég vil að fjármálaráðherra nú geri slíkt hið sama, komi hingað, taki þátt í umræðum með okkur þingmönnum.“

Skilur ekki í Bjarna

Kolbeinn Óttarsson Proppé.

„Mér fannst það til fyrirmyndar í fyrra þegar hæstvirtur þáverandi fjármálaráðherra sat undir umræðunni og tók þátt í henni. Sannast sagna hélt ég að hér yrði hvert sæti skipað í þessari umræðu og þá kannski sérstaklega það sem mikilvægast er, sæti hæstvirtur fjármálaráðherra. Þannig að ég tek bara undir það að mér finnst þetta miður og í raun skil ég ekki af hverju hæstvirtir ráðherrar taka ekki þátt, þá sérstaklega hæstvirtur fjármálaráðherra, í þessari umræðu,“ sagði Kolbeinn Óttarsson Proppé þingmaður VG.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir Pírati sagði: „Ráðherrann hlýtur að vilja ræða þetta tímamótaplagg við okkur, hann hlýtur að vilja útskýra fyrir okkur hvers vegna hann fer ekki að neinum tilmælum, hann hlýtur að vilja réttlæta þessa stefnu sem þarna birtist. Ég hefði haldið að fleiri stjórnarliðar myndu kannski vilja réttlæta þá stefnu sem þarna birtist fyrir okkur hér sem skiljum ekki alveg hvað stefnu þessi ríkisstjórn er að taka. Þeir hljóta að vilja koma hérna og ræða við okkur um stefnu ríkisstjórnarinnar. Hvernig væri það?“

Og Oddný Harðardóttir „Ég fer fram á það, herra forseti, að við frestum þessum fundi og forseti kalli þingflokksformenn á fund með sér til þess að fara yfir þessi mál þar sem ákveðið verður hvort við höldum þessari umræðu áfram eða við frestum henni þar til síðar.“

Kolbeinn var sprækur

Það var sprækt hjá háttvirtum þingmanni Kolbeini Óttarssyni Proppé að koma hér upp og styðja okkur í þessari beiðni,“ sagði Logi Már. „Ég vek athygli herra forseta á því að hann er starfandi þingflokksformaður þannig að það er ósköp eðlilegt og einboðið að þegar þingflokksformaður flokks forsætisráðherra hefur lýst því yfir að það sé ekki eðlilegt að við höldum þessari umræðu áfram án fjármálaráðherra þá geri herra forseti fundarhlé og kalli þingflokksformenn saman og menn ráði ráðum sínum.“

Ólafur Ísleifsson.

Ólafur Ísleifsson, Flokki fólksins, fylgdist ekki þegjandi með: „Hér er um að ræða stærsta mál ríkisstjórnarinnar. Hér er verið að leggja grundvöll að stefnu fimm ár fram í tímann. Það nær vitaskuld ekki nokkurri átt og verður að teljast jaðra við lítilsvirðingu að fjármálaráðherra skuli ekki sitja hér í salnum og taka þátt í þessari umræðu. Ég vil þess vegna taka undir þær kröfur sem hér hafa verið settar um að þessari umræðu verði frestað og hún tekin upp að nýju þegar ráðherra hefur aðstöðu til þess að taka þátt í henni.“

Ekki mál fjármálaráðherra

Birgir Ármannsson.

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sté í pontu: „Fyrst er að segja að þegar ráðherra hefur lagt mál til þingsins, hvort sem það er um að ræða frumvarp eða þingsályktunartillögu, og mælt fyrir því í þinginu þá er málið formlega úr hans höndum og komið í hendur þingsins.Þegar nefnd skilar áliti að lokinni umfjöllun þá er ráðherra ekki aðili þess máls öðruvísi en aðrir þingmenn, það eru framsögumenn meiri hluta og minni hluta sem bera málið uppi í þinginu, þannig að það sé sagt,“ sagði hann.

Helgi Hrafn Gunnarsson.

Helgi Hrafn Gunnarsson Pírati brást við orðum Birgis. „Það er alltaf jafn merkilegt að hlusta á háttvirtan þingmann Birgi Ármannsson í umræðum um fundarstjórn forseta þegar hann útskýrir að vissulega leggi ráðherrar fram mál sem þetta og síðan taki þingið það til umfjöllunar, og hvað? Eigum við þá ekki að biðja um að ríkisstjórnin sem er að leggja þetta fram til fimm ára komi hingað og tali við okkur? Eru það skilaboðin? Mér heyrist það vera þannig. Mér finnst það mjög lélegur málflutningur, en því miður í takt við varnarræðurnar sem eru haldnar í umræðum um fundarstjórn forseta þegar kemur að viðveru ráðherra eða sambærilegum efnum.“

Helga Vala.

Helga Vala Helgadóttir Samfylkingu sagði meðal annars: „Ég held að það sé alger óþarfi að gera hæstv. fjármálaráðherra rúmrusk á þessu ágæta kvöldi.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: