- Advertisement -

Refsiréttur í Ráðhúsi Reykjavíkur?

Viðhorf Vissulega hefur framganga þeirra Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur og Guðfinnu J. Guðmundsdóttur, sem í dag eru borgarfulltrúar Framsóknaflokksins, verið um margt sérstök. Þær gerðu út á andúð fólks á múslimum. Þær vissu að með málflutningi sínum væru þær að teygja sig eftir atkvæðum sem þær hefðu annars ekki fengið. Og leiða má að því líkum að Guðfinna væri ekki borgarfulltrúi í dag hefðu þær ekki hagað sér einsog þær gerðu. Og óvíst er meira að segja að Sveinbjörg væri borgarfulltrúi. Þær hafa dregið ögn í land eftir kosningarnar, en ekki af myndugleik. Þær hafa frekar verið neyddar til að haga málflutningi sínum með öðrum hætti en þær gerðu í kosningabaráttunni.

En hafa þær stöllur, Sveinbjörg Birna og Guðfinna J., gert nokkuð sem segir að þær séu ekki tækar til að stjórna, að þær séu ekki stjórntækar? Þær fóru aðra leið en hinir frambjóðendurnir, segja má að þær hafi misboðið hinum með einhverjum hætti, en þýðir það jafnframt að þær séu óalandi og óferjandi? Er það í valdi annarra borgarfulltrúa að gera hvað þeir geta til að einangra borgarfulltrúa Framsóknarflokksins? Er það gangur lýðræðisins? Ekki er deilt um að þær stöllur voru kjörnar til setu í borgarstjórn í löglegum og lýðræðislegum kosningum. Þær hafa umboð til að starfa innan borgarinnar, þær voru kjörnar til þess.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Má vera að þrátt fyrir hvernig þær töluðu og mótuðu kosningabaráttuna geti þær verið ágætir borgarfullttrúar? Veit Dagur betur, eða Björn Blöndal eða Sóley Tómasdóttir? Sveinbjörg og Guðfinna hafa ekkert vald eða getu til að koma í veg fyrir byggingu mosku í Reykjavík. Bara alls ekki. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði, í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni á sunnudaginn, að hann vissi ekki betur en moskan yrði byggð í Sogamýri.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hér er spurt hvort aðrir borgarfulltrúar, en tveir fulltrúar Framsóknarflokksins, séu til þess fallnir að eingangra tvo fulltrúa Framsóknar, þar sem þeim líkaði ekki framganga þeirra í kosningabaráttunni. Verður ekki að reyna hvort þær valdi því starfi sínu sem kjörnir fulltrúar í borgarstjórn og í þeim nefndum og ráðum þar sem þær eiga eftir að sitja í sem borgarfulltrúar.

Hitt er svo annað mál. Sveinbjörg Birna og Guðfinna fóru í sérstakan leiðangur. Þær vissu að þær sóttu fylgi til fólks sem ber slæman hug til fámenns hóps fólks. Þær breyttu rangt. En eru allir borgarfulltúarnir líka að breyta rangt? Hafa þeir sett upp refsirétt í Ráðhúsi Reykjavíkur, og fellt dóm? Eru þau þess umkomin?

Sigurjón Magnús Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: