- Advertisement -

Ríkið arðrænir þau fátækustu

Forseti ASÍ harðorður og segir ríkisvaldið hafa hirt kjarabætur þeirra sem minnst hafa og hafa á sama tíma opnað fyrir endalausar hækkanir á hinum endanum.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir í nýju riti sambandsins að verkalýðshreyfingunni hafi tekist frá aldamótum að hækka lægstu laun um 36% meira en almenn laun í landinu.

„Sú mikla reiði sem við heyrum úr röðum þeirra tekjulægstu er hins vegar ekki úr lausu lofti gripin, heldur eru þetta eðlileg viðbrögð við tvennu sem hvorutveggja á rót sína að rekja til stjórnvalda,“ skrifar hann.

Gylfi heldur áfram: „Annað er að ávinninginn af mikilli hækkun lægstu launa hafa stjórnvöld tekið af tekjulægsta fólkinu með því að hækka skatta á þann hóp og með verulegri skerðingu barna- og húsnæðisbóta til hans,“ skrifar Gylfi og ekki bara þetta.

„Hitt er að á sama tíma og þetta á sér stað hafa stjórnvöld bæði lækkað skatta á þá efnameiri og leyft kjararáði að hækka laun þingmanna og æðstu embættismanna langt umfram það sem almennt hefur verið samið um.“

Síðan segist Gylfi telja mikilvægt að „sameinuð verkalýðshreyfing“ verði að bregðast mjög hart við þessu og sameinast í baráttunni gegn óréttlætinu sem opinberast í þessum gjörningum. Við verðum að berjast gegn ríkisstjórnum sem lækka skatta á ríka fólkið en hækka skatta á þá sem sem verst standa. Það er hvorki réttlátt né siðlegt og verður að stöðva.“

Nú er spurning hvort Gylfi kom og seint fram með herútkall, vegna framgöngu stjórnvalda gegn þeim sem minnst hafa, eða ekki. Nýtt fólk er komið til forystu víða í verkalýðshreyfingunni og ekki er víst að það þekkist forystu Gylfa. Það á eftir að skýrast.

Framar í grein sinni fer Gylfi löngu máli hvernig sú stefna sem ASÍ hefur fylgt og rakið á síðustu árum hefur skilað meiri og betri árangri en náðist á ofurverðbólguárunum, allt til ársins 1990.

Gylfi endar grein sína með þessum orðum: „Það er hins vegar alveg ljóst, að við getum þetta ekki nema að við stöndum saman – við erum svo miklu sterkari saman!“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: