- Advertisement -

Salek er ekki norræna módelið

 

Gylfi Dalmann Aðalsteinsson ræðir vinnumarkaði á sjónvarpsstöðinni Hringbraut.

Vinnumarkaður Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, lektor í félagsfræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur í vinnumarkaði, hefur bent á að margt vanti til að Saleksamkomulaginu svipi til þess hvernig unnið er á Norðurlöndunum. Hann hefur t.d. nefnt dæmis vaxtakjör, frían eða gjaldlítinn aðgang að heilbrigðiskerfi, barnabætur og margt annað. Gylfi hefur sagt vinnumarkaðinn hér ólíkan því sem tíðkast þar. Hann hefur sagtað hér séu hlutfallslega langtum fleiri verkalýðsfélög og áhrif fámennra stétta séu því meiri hér en þar og það sé nokkuð sem verði að skoða.

Húsnæðisskuldir eru alla lifandi að drepa

Guðmundur Þ. Ragnarsson, formaður VM, félags vélstjóra og málmtæknimanna, er í viðtali við blaðið Sóknarfæri, þar sem hann kemur að Salek.

Guðmundur Þ. Ragnarsson formaður VM.

„Mín skoðun er sú að forsenda þess að hægt sé að koma hér á svokölluðu norrænu samningsmódeli, sem í almennri umræðu er kennt við SALEK, er að gera stórátak í byggingu húsnæðis fyrir þá sem lægst hafa kjörin. Hér eru húsnæðisskuldir alla lifandi að drepa og langbesta kjarabót þeirra sem minnst hafa kaupið er að hafa aðgang að öruggu húsnæði á sanngjörnu verði. Það gefur auga leið að fólk með lágar tekjur getur ekki þrifist við aðstæður þar sem leiga á 3ja herbergja íbúð kostar 250.000 kr. á mánuði eða að lunginn af laununum fari í að borga af lánunum. Þennan vítahring verður að rjúfa.“

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Fylgst er með hvað hún gerir.

Fylgjumst spennt með ríkisstjórn Katrínar

Guðmundur bætir við að hann hafi ásamt fleiri aðilum vinnumarkaðarins farið til Osló, Stokkhólms og Kaupmannahafnar og kynnt sér norræna módelið og það hafi verið áhugaverðir fundir. „Við hittum þarna ríkissáttasemjarana, menn úr fjármálaráðuneytum, frá atvinnurekendum og svo auðvitað okkar vopnabræður í verkalýðshreyfingunum, bæði frá almennu og opinberu félögunum. Allir voru þeir einhuga um að snúa ekki til baka til fyrra kerfis heldur halda sig við að bæta kjörin út frá afkomu útflutningsgreinanna. Það hefur í þessum löndum leitt til 30-40% kaupmáttaraukningar frá því sem var á 10. áratug síðustu aldar. En þessi árangur hefur ekki náðst nema með stórfelldu inngripi ríkisins til að bæta kjör hinna verst settu. Þetta tvennt hefur haldist í hendur. Þá erum við að tala um niðurgreitt húsnæði og ýmsan stuðning sem þeir lægst launuðu hafa aðgang að. Þannig eru kjörin jöfnuð í Skandinavíu. Hér á landi er nánast búið að strika allt slíkt út og á meðan það ástand varir á Íslandi er tómt mál að tala um að bæta kjörin, auka jöfnuð og koma á stöðuleika með stígandi aukningu á kaupmætti. Íslenska leiðin var og er jafnan sú að krefjast hárra krónutölu- eða prósentuhækkana við samningsborðið sem undantekningalaust hefur endað með verðbólgu sem hirðir allan ávinninginn. Þess vegna segi ég að ríkið verður að koma að þessu borði og það án tafar ef ekki á illa að fara. Við fylgjumst auðvitað spenntir með aðgerðum og stefnu nýrrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, ekki bara í orði heldur fyrst og fremst í borði.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: