- Advertisement -

Seðlabanki spillir fyrir kjaraviðræðum

Björgvin Guðmundsson.

Björgvin Guðmundsson skrifar: Rás 2 ræddi við Vilhjálm Birgisson, 1. varaforseta ASÍ og formann Verkalýðsfélags Akraness í morgun. Hann var mjög harðorður út í vaxtahækkun Seðlabankans; sagði hana setja kjaraviðræðurnar í uppnám.

Vilhjálmur sagði, að þessi vaxtahækkun torveldaði kjarasamninga, atvinnurekendur fyndu mjög fyrir hækkun vaxta (hafa mótmælt vaxtahækkuninni), hún gerði þeim erfiðara fyrir að samþykkja launakröfur verkalýðsfélaganna. Vilhjálmur sagði, að vaxtakostnaður Íslendinga væri 66 milljörðum hærri en vaxtakostnaður nágrannaríkjanna. Hann sagði, að Seðlabankinn hefði leikið sama leik í kjaraviðræðunum 2015 en þá hefði Seðlabankinn tvívegis hækkað vexti. Fyrir þær viðræður sagði Már seðlabankastjóri, að óðaverðbólga mundi bresta á, ef kröfur verkalýðsfélaganna yrðu samþykktar. Þær voru samþykktar en engin verðbólga varð.

Þrátt fyrir þessa lífsreynslu endurtekur Seðlabankastjóri leikinn aftur. Þetta er hrein skemmdarstarfsemi. Seðlabankinn er hreinlega að spilla kjaraviðræðum og reynir að hræða verkalýðshreyfinguna. En hætt er við, að þessi skemmdarstarfsemi Seðlabankans hafi öfug áhrif.

Eldri borgarar og öryrkjar! Munum, að ef ríkisstjórn, Seðlabanka og SA tekst að halda launum niðri og nánast óbreyttum munu þeir einnig halda lífeyri óbreyttum og áfram við hungurmörk!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: