- Advertisement -

Segir Gylfa kominn í kosningaham

Viðhorf Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sendir Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ, tóninn vegna framgöngu Gylfa liðna daga, vegna hárra launahækkana stjórnenda.

„Forsetinn mætti þannig til leiks í jakka verkalýðsleiðtogans og köflóttu skyrtunni. Sú hegðan er reyndar þekkt í undanfara kosninga til embættis forseta ASÍ og hefur sýnt sig áður undir svipuðum kringumstæðum. Forsetinn hefði kannski átt að mæta til leiks í SA-jakkanum en félögum hans þar kom launaskrið stjórnenda fyrirtækja sl. ár jafn mikið á óvart og forsetanum sjálfum sem er reyndar sérstakt umhugsunarefni,“ segir Þorsteinn í grein sem Morgunablaðið birti í dag.

Hann segir Gylfa sitja allt í kringum borðið, að hann leiki mörg hlutverk.

„Það dugar hins vegar ekki forseta Alþýðusambands Íslands að sitja báðum megin borðs. Hann á sæti allt í kringum borðið í fjölmörgum hlutverkum. Hann er reyndar í svo mörgum jökkum að hann ruglast ítrekað þegar hann stekkur fram á völlinn og lætur til sín taka. Nú nýlega kom forsetinn fram í fjölmiðlum og fór mikinn vegna launaskriðs millistjórnenda á almennum markaði og ekki að ófyrirsynju. Það vekur hins vegar athygli að forseti ASÍ beinir spjótum sínum að SA vegna launaskriðsins og boðar hörku í næstu kjaraviðræðum.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þá rekur Þorsteinn aðkomu lífeyrissjóðanna að mörgum stærstu fyrirtækjum landsins. Og segir: „Nú væri lag fyrir forseta ASÍ og aðra menn honum tengda sem sitja í stjórnum lífeyrissjóðanna að vinna að raunverulegum launajöfnuði með því að taka á ofurlaunum stjórnenda þeirra fyrirtækja sem lífeyrissjóðir eiga eignarhlut í. Rétt er að benda forsetanum á að launaskrið ofurlaunaþeganna er vís leið til þenslu í efnahagslífinu. Ég er þess fullviss að fá má til starfa hæfa stjórnendur að fyrirtækjum í hlutaeigu lífeyrissjóðanna fyrir mun lægri laun en fimmtíu til hundrað milljónir króna á mann á ári. Hægt er að benda á að enn ganga þó nokkrir háskólamenntaðir menn og konur atvinnulaus. Í þeim hópi er mikill mannauður sem myndi eflaust taka fagnandi tækifæri til að láta til sín taka við stjórn fyrirtækja sem lífeyrissjóðirnir þeirra eiga misstóra eignarhluti í. Forseti ASÍ hefur kannski ekki áttað sig á að með háværri gagnrýni sinni vegna launaskriðsins er hann í raun að beina spjótum að spegilmynd sinni handan borðsins.“

 

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: