- Advertisement -

Segja rannsóknarrétt í Ráðhúsinu

„Það er raunar fordæmalaust að skrifa þurfi borgarfulltrúum bréf til að upplýsa um stjórnunarvanda í Ráðhúsi Reykjavíkur og áframhaldandi aðför að starfsmanni þar.“ „Síðasta smjörklípan sú að saka borgarfulltrúa um meiðandi og alvarlega umræðu um sig.“

Hallur Páll Jónsson, framkvæmdastjóri Kjarafélags vipskiptafræðinga og hagfræðinga er ekki sáttur með framgöngu embættismanna Reykjavíkurborgar og hefur blandað sér í viðkvæma stöðu innan Ráðhússins vegna dómsins vegna framgöngu skrifstofustjóra.

„Því miður virðist dómurinn og dæmdar skaðabætur vegna ærumeiðandi framgöngu, ekki hafa haft þau áhrif að skrifstofa borgarstjóra og borgarritara ætli að læra af honum. Þvert á móti á að halda áfram aðför að fjármálastjóra Ráðhúss, í stað þess að láta kyrrt liggja og biðja viðkomandi afsökunar á málinu öllu,“ skrifar hann.

„Fjármálastjóri ráðhúss taldi eins og fleiri að þessu leiðindamáli væri lokið og hann gæti um frjáls höfuð strokið og sinnt sínum störfum fyrir Reykjavíkurborg eins og hann hefur gert með sóma undanfarin rúm 12 ár. Borgarritari og skrifstofustjóri hans virðast hins vegar ekki af baki dottnir, þrátt fyrir nýfallinn dóm Héraðsdóms og hafa nú tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið, eins og að framan segir.

Það er raunar fordæmalaust að skrifa þurfi borgarfulltrúum bréf til að upplýsa um stjórnunarvanda í Ráðhúsi Reykjavíkur og áframhaldandi aðför að starfsmanni þar, en þá er þess að geta að eitt af verkefnum borgarráðs er að hafa „umsjón með stjórnsýslu borgarinnar“, eins og segir í 46.gr. samþykkta um stjórn Reykjavíkurborgar, auk þess að „ráða starfsmenn í æðstu stjórnunarstöður hjá Reykjavíkurborg og veita þeim lausn frá störfum“, eins og segir í 73.gr. samþykktanna.   Þetta kann því vera rétta leiðin til að hafa áhrif á að umræddir stjórnendur í Ráðhúsi Reykjavíkur dragi réttan lærdóm af niðurstöðu Héraðsdóms og láti af ámælisverðri háttsemi sinni,“ skrifar hann.

Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi hefur farið fremst kjörinna fulltrúa í málinu. Í bókun í forsætisnefnd í morgun var þetta meðal annars bókað: „Ljóst er samkvæmt þessu að ekki hefur verið brugðist við dómnum með viðeigandi hætti og það viðurkennt að málinu lauk við dómsuppkvaðningu. Í stað þess er haldið áfram og settur upp rannsóknarréttur í ráðhúsinu og ekki er hægt að skilja það öðruvísi en svo að verið sé að véfengja niðurstöðu dómsins.“

Hallur Páll Jónsson.

Hallur skrifaði borgarfultrúum annan póst þar sem segir:

Skrifstofustjórinn heldur því fram og lætur líta út í bréfinu að einhverjar nýjar yfirlýsingar hafi komið fram í málflutningi við aðalmeðferð um að fjármálastjórinn hafi sakað hana um einelti. Það er af og frá. Athugið að hún notar orðin málflutningur við aðalmeðferð. Það getur ekki átt við um annað en málflutning lögmanna, enda eru skýrslur aðila og vitna við aðalmeðferð ekki hluti málflutnings við aðalmeðferð.

Í málflutningi lögmanna kom ekkert nýtt fram í þessum efnum frá því sem fram kom í gögnum málsins. Lögmaður Reykjavíkurborgar vísaði ítrekað til þess sem fram hafði komið af hálfu fjármálastjórans haustið 2016, að fjármálastjórinn hefði þá sakað skrifstofustjórann um eineltistilburði.

Það eru því hreinar rangfærslur og afvegaleiðing umræðunnar, svo sem skrifstofustjórinn gerir nú, að halda því fram að eitthvað nýtt hafi komið fram í málflutningi lögmanna við aðalmeðferð og að það geti réttlætt eineltisrannsókn næstum tveimur árum síðar.

Að auki kemur fram í bréfi skrifstofustjórans að „rannsóknin hafi ekki verið sett af stað“.  Það er einnig rangt.  KVH hefur þvert á móti fundargögn um að fjármálastjórinn var boðaður á fyrsta fund rannsóknar eineltisteymis skóla- og frístundasviðs,  þ. 18.maí s.l.   Með fjármálastjóranum á þeim fundi var fulltrúi hans stéttarfélags.  Þar lagði fjármálastjórinn fram bókun þess efnis að hann hafi ekki lagt fram kvörtun um einelti. Auk þess væri mál rekið fyrir héraðsdómi milli hans og borgarinnar og  var þess krafist af hans hálfu að fundi yrði slitið, sem var gert.

Rúmum mánuði eftir að héraðsdómur kvað upp afdráttarlausan úrskurð sinn og dæmdi Reykjavíkurborg til að greiða fjármálastjóranum miskabætur vegna framgöngu skrifstofustjórans,  er áfram haldið og fjármálastjórinn boðaður á næsta fund eineltisteymis þann 18.júlí s.l.    Þessu var einnig mótmælt og var þeim fundi frestað.

Afvegaleiðing umræðunnar birtist einnig í bréfi skrifstofustjóra til forsætisnefndar með ósk um að fram fari önnur allsherjar „rannsókn á framkomu hennar í garð undirmanna sinna með það að leiðarljósi að kanna hvort sú lýsing sem dómurinn setur fram eigi við rök að styðjast“ !!  Hér vill skrifstofustjórinn ekki una niðurstöðu héraðsdóms heldur reyna að hnekkja henni með eigin rannsókn og halda áfram aðför sinni að fjármálastjóranum.

Til að kóróna verkið er síðasta smjörklípan sú að saka borgarfulltrúa um meiðandi og alvarlega umræðu um sig, og leggja fram beiðni um enn aðra rannsókn, þ.e. hvort borgarfulltrúi hafi brotið ákvæði sveitarstjórnarlaga og hvort málið skuli sent siðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Með kveðju, Hallur Páll Jónsson, framkvæmdastjóri KVH.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: