- Advertisement -

Siðleysi og stjórnarsáttmáli

Dr. Jónas Haralz. Hann sagði siðleysið alltaf finna sér farveg.

Stjórnmál Dr. Jónas Haralz var um margt merkilegur maður. Ég held að ég hafi tekið síðasta viðtalið sem tekið var við hann. Mér ógleymanlegt. Það var í febrúar 2010 sem við settumst niður og töluðum saman. Það er ein setning úr viðtalinu sem mig langar að rifja upp. Jónas sagði: Það er alveg sama hversu margar reglur og mörg lög við finnum upp, siðleysið mun alltaf finna sér farveg.

Fyrir ekki svo löngu síðan, fyrir aðeins fáum mánuðum reyndar, sagði núverandi ráðherraefni Vinstri grænna á Alþingi að Sjálfstæðisflokkurinn væri gangandi hagsmunaárekstur. Margar aðrar setningar eru hægt að finna til. Þess þarf ekki. Hin nýju viðhorf forystu VG gagnvart Sjálfstæðisflokki eru eftirtektarverð. Flokkurinn hefur verið gagnrýndur af mikilli hörku og ekki síst formaðurinn, Bjarni Benediktsson. Nú er sleginn nýr tónn.

Nú liggur fyrir fornum fjandvinum að setjast niður og skrifa stjórnarsáttmála. Þess vegna er gott að hafa orð Jónasar Haralz í huga. Það er sama hversu nákvæmur og langur sá sáttmáli verður, hann mun aldrei stöðva siðleysið, það finnur sér alltaf farveg.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Framundan er eflaust sala ríkiseigna, skipan margra héraðsdómara, vilji til einkareksturs hér og þar og fleira má telja til. Vinstri græn vilja og ætla að taka ábyrgð á að siðleysið, sem þau hafa sakað Sjálfstæðisflokkinn um á liðnum árum, verði ekki með í för. En það er bara ekki hægt. Því það finnur sér alltaf farveg.

Ef fer sem horfir er óskandi að vel takist til. Óþarfi er að ætlast til of mikils. Sjálfstæðisflokkurinn er valdaflokkurinn.  Á því er ekki sjáanleg nein breyting.

-sme


Booking.com

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: