- Advertisement -

Sigmundi verði hent út á asnaeyrunum

Kári Stefánsson 3SAMFÉLAG Hrifning Kára Stefánssonar á Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra virðist ekki aukast. Kári skrifar grein í Fréttablaðið í dag, þar sem orð Sigmundar Davíðs um fjárframlög til heilbrigðismála, á Alþingi fyrr í vikunni, eru tilefni skrifanna. Það var Steingrimur J. Sigfússon sem átti orðastað við forsætisráðherra á þinginu, samkvæmt grein Kára.

„Spyrillinn er fyrrverandi fjármálaráðherra sem á sínum tíma lagði fram fyrra Icesave-frumvarpið sem var hent út í hafsauga af fólkinu í landinu. Svarandinn er sá sem leiddi baráttuna gegn frumvarpinu. Spyrillinn er líka sá sem lagði fram seinna Icesave-frumvarpið sem bar með sér að hann hafði algjörlega hunsað vilja fólksins eða ekki haft fyrir því að hlusta á hann. Seinna frumvarpinu var líka hafnað af fólkinu með slíkum mun að eðlilegt hefði verið að Hjálpræðisherinn byði fjármálaráðherra áfallahjálp.“

„Baráttan gegn seinna frumvarpinu var líka leidd af manninum sem stóð fyrir svörum á mánudaginn. Í þeirri baráttu sagði hann oftar en einu sinni að fjármálaráðherra væri nær að hlusta á vilja fólksins í landinu. Víkur nú sögunni aftur til mánudags þegar fjármálaráðherrann fyrrverandi var orðinn óbreyttur þingmaður sem bar fram fyrirspurn um það hvernig ríkisstjórnin muni bregðast við ákalli þjóðarinnar um aukna fjármuni til heilbrigðismála.“

Hér er unnt að lesa grein Kára í heild sinni, en hún talsvert lengri en þær tilvitnanir sem hér er að finna.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í lok greinar sinnar segir Kári:

„Afstaða Sigmundar til heilbrigðismála minnir um margt á afstöðu Steingríms Joð til Icesave sem er að hann hefur hunsað fólkið sem hefur allt aðra skoðun en hann og hann ætlar að reyna að þröngva sinni skoðun upp á fólkið sem vill ekkert hafa með hana að gera. Afleiðingin verður sú að honum verður hent út á eyrunum við næstu kosningar eins og Steingrími Joð var við þær síðustu.

Eini möguleiki Sigmundar er að stíga nú fram og segja að allt sem hann hafi sagt um heilbrigðismál upp á síðkastið beri að líta á sem nokkurs konar öfugmælavísu þar sem hann hafi mælt sér um hug. Enda sé hann meðal annars þingmaður Þingeyinga sem séu hagyrðingar upp til hópa og þyki flínkastir manna við að smíða öfugmælavísur.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: