- Advertisement -

Skattkerfi andskotans: HÁTEKJUSKATTUR Á LÆGSTU TEKJURNAR

Gunnar Smári skrifar: Allra tekjuhæsta fólkið borgar aðeins um 20 prósent af launum sínum í skatt. Það er líka jaðarskattur hinna ríku, við hverja miljón sem þau bæta við tekjur sínar tekur ríkið 20 prósent eða 200 þúsund. Verkafólk á lágmarkslaunum er með 300 þús. kr. á mánuði eða 3,6 m.kr. á ári. Ef það bætir tekjur sínar um milljón á ári, ef það hækkar úr 300 þúsund krónum á mánuði í rúmar 383 þúsund krónur, þá tekur skatturinn tæp 37 prósent eða 369.400 kr. á ári til sín. Ríkið tekur því hlutfallslega meira af þeim sem bætir milljón ofan á lægstu árstekjur en þeim sem bætir einum milljarði ofan á þann síðasta. Ríkið telur að hin allra ríkustu þurfi meiri vernd, meiri skilning og meira svigrúm en hin allra fátækustu.

En hin lakar settu borga enn hærri jaðarskatt í flestum tilfellum. Ef við athugum hvað einstæð móðir með tvö börn á lágmarkslaunum í fyrra, þá voru þau 280 þúsund krónur, borgaði til ríkisins ef laun hennar hefðu hækkað um 100 þúsund krónur á mánuði kemur í ljós að jaðarskattur hennar var 45%. Rúmar 35 þúsund krónur fóru í hærri tekjuskatt, tæpar 7 þúsund krónur í lækkun barnabóta og tæpar 3 þúsund krónur í lækkun húsnæðisbóta. Ef þessi einstæða móðir með tvö börn hefði aftur bætt við sig 100 þúsund krónum í tekjur, farið úr 380 þúsund krónum á mánuði í 480 þúsund krónur í atvinnutekjum, hefði skatturinn tekið tæp 53% af þessum nýja hundrað þúsund kalli. Skatturinn hefði tekið beint rúmar 35 þúsund krónur, barnabætur lækkað enn um rúmar 9 þúsund krónur á mánuði og húsnæðisbætur um rúmar 8 þúsund krónur. Af þessum nýja hundrað þúsund kalli hefði einstæða móðirin og börnin hennar haldið eftir rétt rúmum 47 þúsund krónum. Við hin hefðum tekið af þeim tæpar 53 þúsund krónur. Og notað þær til að lækka enn skatta á hinum allra ríkustu.

Ef þessi einstæða móðir hefði átt 5 milljónir króna í 30 milljón króna íbúð og skuldað restina á allra lægstu vöxtum þá hefði jaðarskattur hennar verið tæp 49 prósent við fyrri hundrað þúsund kallinn, frá 280 þúsund krónum á mánuði í 380 þúsund krónur, og tæpt 51 prósent við þann síðari. Vaxtabætur hefðu skerst álíka og húsnæðisbætur.

En ef ykkur þykir þetta grimmt skattkerfi ættuð þið að skoða raunveruleika eftirlaunafólks og öryrkja. Sá sem býr einn og er með 225 þúsund krónur á mánuði frá lífeyrissjóðum og 100 þúsund í atvinnutekjur fær rúmar 200 þúsund krónur í eftirlaun. Eftir skatta gerir þetta alls um 385 þúsund krónur í ráðstöfunarfé. Ef launin hækka um 50 þúsund krónur á mánuði þá hækkar skatturinn og bæturnar lækka svo eftir sitja bara rúmar 13 þúsund krónur af þessum 50 þúsund krónum í auknu ráðstöfunarfé. Jaðarskatturinn er rétt tæp 73 prósent í þessu tilfelli. En er 20 prósent hjá hinum allra auðugustu. Fátæka eftirlaunafólkið borgar næstum fjórfalt meiri skatt.

Þú gætir haft áhuga á þessum

En þetta er ekki versta dæmið. Það er eins og illmenni hafi samið efnahagslegan raunveruleika eftirlaunafólks og öryrkja. Ímyndum okkur konu á eftirlaunum sem býr ein og er með 200 þúsund króna launatekjur og 250 þúsund krónur frá lífeyri. Hún fær þá tæpar 144 þúsund krónur í ellilífeyri og ráðstöfunarfé eftir skatta er þá rúmlega 427 þúsund krónur. Segjum að þessi kona fái 30 þúsund krónum meira í laun einn mánuðinn. Þá lækkar lífeyririnn um rúmar 17 þúsund krónur og skatturinn hækkar um tæpar 5 þúsund krónur svo konan á aðeins 6.624 krónur eftir af þessum 30.000 krónum sem hún vann sér inn. Jaðarskatturinn er 72,8 prósent.

Hvers vegna? Svo við getum varið lága skatta hinna allra ríkustu. Þegar við afnumdum eignaskatta, lækkuðum fjármagnstekjuskatt, erfðafjárskatt og tekjuskatta fyrirtækja urðum við að bæta það upp með einhverjum hætti. Þá var skattbyrði hinna lakast settu aukin og jaðarskattar þessara hópa hækkaðir upp fyrir það sem þekkist nokkru staðar á byggðu bóli gagnvart hinum allra best settu.

Þið munið sögur af skattgreiðslum Astrid Lindgren á áttunda áratugnum, hún átti að hafa borgað meira en tekjur sínar í skatt vegna hátekjuskattsins í Svíþjóð. Á Íslandi er lagður hátekjuskattur á hin allra verst settu, þau eru hópurinn sem við teljum eðlilegt að borgi hátt hlutfall af hverjum nýjum þúsund kalli sem þau finna. Við fórum úr skatt- og velferðarkerfi þar sem fólk borgaði inn eftir getu og fékk út eftir þörfum í kerfi þar sem hin ríku borgar bara það sem þau vilja og þau sem þurfa á aðstoð að halda verða sjálf að borga fyrir hana með háum sköttum og skerðingum.

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: