- Advertisement -

Skil ekki þessa andúð Vinstri grænna

Ljósmynd: Hringbraut.

Þorsteinn Víglundsson skrifar: Ég skil ekki þessa andúð Vinstri grænna á sjálfstætt starfandi heilbrigðisstéttum. Þessi tillaga er sett fram á sama tíma og við sjáum fjölmörg dæmi í fréttum um að hér sé að myndast tvöfalt heilbrigðiskerfi, að stórum hluta vegna þess að Sjúkratryggingum er neitað um heimild til að semja við sérfræðinga á ýmsum sviðum heilbrigðiskerfisins þar sem þjónustu sárlega vantar. Það mætti stundum ætla af orðum og athöfnum heilbrigðisráðherra og flokki hennar að það sé beinlínis markmiðið að koma á tvöföldu kerfi.

Hver verða áhrifin?

Það sem skiptir okkur mestu máli sem samfélag er að hér sé framúrskarandi og hagkvæm heilbrigðisþjónusta, kostuð af hinu opinbera, sem veitir okkur tímanlega þjónustu. Ef við getum náð betri árangri með útboðum á hluta þeirrar þjónustu, líkt og við gerum nú þegar í um 30-40% af umfangi heilbrigðiskerfisins, þá er sjálfsagt að nýta þann möguleika. Í þessari tillögu er ekkert fjallað um mögulegar afleiðingar fyrir heilbrigðiskerfið. Er líklegt að lög sem þessi dragi úr áhuga lækna til að snúa heim eftir langt og dýrt sérfræðinám, vegna takmarkaðri atvinnumöguleika hér en annars staðar? Er líklegt að þetta ýti undir starfsemi hæfra sérfræðinga utan heilbrigðiskerfisins sem þá sinni þeim sjúklingum sem hafa efni á því að borga fullt verð og fá þannig þjónustu fyrr en ella. Hvaða áhrif hefði þetta á þá þjónustu sem veitt er í kerfinu í dag af sjálfstætt starfandi sérfræðingum á borð við tannlækna, augnlækna, hjartalækna og svo mætti endalaust áfram telja?

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ríkið kaupir fjölþætta þjónustu

Hið opinbera kaupir fjölþætta þjónustu af ótal fjölda fagfólks, hvort heldur sem er rafvirkjum, pípurum, smiðum, lögmönnum, landfræðingum, viðskiptafræðingum, ræstitæknum, kennurum, listamönnum og svo mætti endalaust áfram telja. Hið opinbera skiptir við fyrirtæki í vegagerð, húsbyggingum, ræstingum, flugi, vöruflutningum , hönnun, Ég hef ekki heyrt nokkurn tala um að óeðlilegt sé að þessar stéttir hafi hagnað af þjónustu sinni við hið opinbera.

Það eru ekkert öðru vísi peningar sem fara í greiðslu fyrir þessa þjónustu við hið opinbera heldur en í greiðslu fyrir heilbrigðisþjónustu. Þessir fjármunir eru úr sama potti og „hinir“ og eru alveg jafn „takmarkaðir“ og þeir fjármunir sem renna til heilbrigðisþjónustu.

Grundvallar misskilningur

Þess utan byggir tillaga sem þessi á einhverjum grundvallar misskilningi á þvi hvernig hið opinbera á að stýra innkaupum á vöru og þjónustu. Við bjóðum út vegagerð af því við teljum að þannig getum við byggt upp vegakerfið með hagkvæmari hætti en ef ríkið gerði þetta sjálft. Sérhæfðir verktakar sem keppast um verkefnin geti einfaldlega gert þetta með hagkvæmari hætti en hið opinbera. Við fáum því meira fyrir takmarkað fé. Þar er ekki spurt að því hvort viðkomandi hagnist eða ekki heldur hvort tekist hafi að tryggja lægsta mögulega verð. Hið sama á við um flest önnur vöru- og þjónustu viðskipti hins opinbera.

Snúið á haus

Þegar kemur að heilbrigðisþjónustu snýst þetta einhverra hluta vegna algerlega á haus. Þar virðist enginn hafa áhyggjur af því hvað þjónustan kostar. Í mörgum tilvikum vitum við það ekki einu sinni. Helstu áhyggjur Vinstri grænna virðast vera af því að einhver hagnist mögulega af því að sinna þessari þjónustu. Jafnvel sé betra til að koma í veg fyrir slíkt með því að senda sjúklinga utan til aðgera, fyrir margfalt verð, til að koma í veg fyrir að einhver „óprúttinn“ læknir verði ríkur af því að sinna slíkri þjónustu hér á landi.

Grein var birt á Facebooksíðu höfundar. Myndir, fyrirsögn og millifyrirsagnir eru Miðjunnar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: