- Advertisement -

Stjórnir fyrirtækja leiksoppar forstjóra

Allt í boði lífeyrissjóðanna sem hafa brugðist. Stjórnendur ríkisfyrirtækja njóa kjara langt umfram almenning. Áhrifamiklir einstaklingar og valdamiklar stjórmálahreyfingar vilja ekki breytingar.

Katrín Jakobsdóttir, Bolli Héðinsson, Kristrún Heimisdóttir fundarstjóri og Gylfi Zoega.

Bolli Héðinsson, hagfræðingur og formaður Samtaka sparifjáreigenda, sagði á opnum fundi að vel megi vera að ráðamenn í fyrirtækjum hafi haldið að sér höndum í að skara eld að eigin köku, í örfá misseri eftir hrunið en það virðist ekki lengur raunin.

„Daglega berast okkur fréttir af launum sem greidd eru forstjórum fyrirtækjanna, launum sem eru langt út úr korti við skynjun alls venjulegs fólks á eðlilegum launagreiðslum.

Þessi ofurlaun eru til þess fallin að auka á þá tilfinningu almennings að hann hafi verið skilinn eftir og þeir sem fleyttu rjóman fyrir hrun fái að gera það áfram.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Til viðbótar hlýtur almenningi að gremjast að þetta gerist allt í boði lífeyrissjóðanna sem hafa það eitt hlutverk að þjóna þeim sama almenningi. Þannig hefur ekki orðið nein hreyfing í þá veru hjá lífeyrissjóðum að koma sér saman um samræmt launakerfi í fyrirtækjum í þeirra eigu, heldur þvert á móti, að fyrir samkomulagsleysi lífeyrisssjóðanna þá eru stjórnir fyrirtækjannna leiksoppar forstjóranna sem spila á og með stjórnirnar, sjálfum sér til hagsbóta,“ sagði hann.

Lífeyrissjóðirnir hafa brugðist

Bolli sagði síðan: „Þetta ber ekki svo að skilja að ég telji ekki að lífeyrissjóðirnir hafi hlutverki að gegna, þeir eru afar mikilvægar stofnanir í samfélagi okkar og þrátt fyrir allt trygging almennings til framtíðar og fyrir ófyrirséðum áföllum. En í þessum efnum hafa þeir aftur á móti brugðist.“

Með óbragð í munni

Bolli benti einnig á ríkisforstjórana. „Það sama virðist gilda um stjórnendur í ríkisfyrirtækjum. Þeir njóta kjara og kjarabóta langt umfram það sem almenningur hefur notið eftir hrun. Þegar ljóst var að kjör forstjóra stofnanna og fyrirtækja ríkisins yrði framvegis í höndum stjórna viðkomandi fyrirtækis eða stofnana þá sendi þáverandi fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannesson bréf til þessara sömu stofnana með beiðni um að launum forstjóranna yrði stillt í hóf eða eins og sagði í bréfi ráðherrans sem vildi: „vekja sér­­­staka athygli á mik­il­vægi þess að stjórnir hafi í huga áhrif launa­á­kvarð­ana á stöð­ug­­­leika á vinn­u­­­mark­aði og ábyrgð félag­anna í því sam­­­bandi.“

Er skemmst að minnast að þessi eðlilegu og sanngjörnu tilmæli voru að engu höfð og upp hófst útdeiling launa til æðstu stjórnenda eins og enginn væri morgundagurinn.

Eftir situr almenningur með það óbragð í munni og þá tilfinningu að hafa þurft að taka á sig allar byrðarnar en fá ekki notið neins þegar úr hefur ræst.  Gildir þetta bæði um ríkisvaldið og eins og áður er getið og fyrirtækin í eigu lífeyrissjóðanna. Hvoru tveggja fyritæki sem með réttu eiga að svara fyrir gjörðir sínar gagnvart almenningi einum.“

Áhrifafólk vill ekki breytingar

En hvers vegna er þetta svona?

Bolli sagði: „Eftir hrun var án nokkurs vafa raunverulegur vilji til að reyna nú að gera hlutina öðruvísi en áður, og þá ekki bara einhver tæknileg atriði á vettvangi fjármálamarkaðarins, heldur hér yrði um nýtt upphaf að ræða, upphaf annars konar þjóðmenningar.

Með réttu eða röngu var ein viðleitni í þessa átt að að efna til endurskoðunar stjórnarskrárinnar með kjöri til Stjórnlagaráðs og framlagi þess til endurskoðunar stjórnarskrárinnar.  Ýmis fleiri atriði mætti nefna t.a.m. aukin tíðni þjóðaratkvæðagreiðslna og viljinn til að efna til þeirra.

Eftir því sem lengra hefur liðið frá hruni hefur komið í ljós að bæði áhrifamiklir einstaklingar og valdamiklar stjórmálahreyfingar vilja ekki sjá neinar breytingar og að þeir telji að aðeins hafi orðið hiksti í annars góðu kerfi, sem er gott fyrst og fremst vegna þess að þeir trúa því að það verndi best þá hagsmuni sem þeir hafa boðið sig fram til að vernda. Á meðan kraumar óánægja almennings þó á henni beri misjafnlega mikið.“


Booking.com

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: