- Advertisement -

Stjórnvöld beygi Seðlabankann

„..með því að koma vitinu fyrir fulltrúa Seðlabankans…“

„Nú verða stjórnvöld að bregðast við og það geta þau gert m.a. með því að koma vitinu fyrir fulltrúa Seðlabankans með því að lækka vexti og síðan verða stjórnvöld að afnema verðtryggingu á fjárskuldbindingar heimilanna. Íslensk heimili vita hvað gerist ef gengið fellur en þá er ljóst að íslensk heimili munu verða fyrir miklum búsifjum þar sem verðtryggðar skuldir heimilanna geta stökkbreyst á skömmum tíma.“
Þannig skrifar Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, en tilefnið er að laun sjómanna, sem hann hefur reiknað út, hafa lækkað um fimmtíu prósent á aðeins tveimur árum.
Tvennt kemur til. Hækkun krónunnar og lækkandi verð á erlendum mörkuðum.

„Á þessu sést að hér er við gríðarlegan vanda að etja en það er morgunljóst að ekki er hægt að ógna okkar helstu útflutningsgreinum með linnulausri styrkingu krónunnar því á endanum mun það koma illa í bakið á okkur almenningi og þá sögu þekkjum við vel,“ skrifar Vilhjálmur.

„Það er ljóst að margar hliðar eru á gríðarlegri gengisstyrkingu krónunnar og lækkunar á fiskverði og ein hliðin er sú að laun sjómanna hafa lækkað um sem nemur allt að 50% á einungis tveimur árum. Það má ekki heldur gleyma því að þetta tekjufall sjómanna hefur síðan áhrif á skatttekjur ríkis og sveitarfélaga sem og á verslun og þjónustu í þeim sveitafélögum þar sem sjávarútvegur er ríkur þáttur í atvinnusköpun,“ skrifar hann ennfremur.

Vilhjálmi er mikið niðri fyrir: „Það er morgunljóst að við sem þjóð verðum að passa okkur á að skapa ekki þannig forsendur að okkar helstu útflutningsgreinum verði stefnt í mikið rekstraróöryggi því ef það gerist þá munum við sem þjóð öll tapa.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: