- Advertisement -

Svandís ber af sér sakir og bendir á Bjarna

„Ég hef ekki beina aðkomu að þessum viðræðum þar sem þær heyra undir fjármála- og efnahagsráðuneytið en hef þó beitt kröftum mínum til að lausn náist í málinu,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á Alþingi fyrr í dag. Hún bendir á Bjarna Benediktsson og ráðuneyti hans, að þar liggi ábyrgð ríkisins á þeirri stöðu sem er í kjaradeilu ljósmæðra.

„Ég vil byrja á að taka fram að ég styð ljósmæður í baráttu sinni,“ sagði Svandís í upphafi ræðu sinnar. „Ljósmæður eru mikilvæg stétt sem hefur bætt við sig sérmenntun og reynslu sem þjóðfélagið þarf sannarlega á að halda. Það er ótækt að svo langan tíma hafi tekið að semja við ljósmæður og raun ber vitni og áhyggjuefni að ljósmæður á Landspítala segi upp störfum.“

Svandís á sér von um að úr rætist: „Að lokum vil ég segja að það er von mín að kjaradeila ljósmæðra leysist fljótt og vel. Það er ekki bara mikilvægt fyrir öryggi fæðingarþjónustu í landinu, það er einnig mikilvægt að stjórnvöld sendi þau skilaboð að störf stórra og mikilvægra kvennastétta eins og ljósmæðra séu metin að verðleikum. Því að þessar stéttir eru burðarstoð í íslensku samfélagi og eiga að vera viðurkenndar sem slíkar.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: