- Advertisement -

Svo mörg voru þau orð

Hér eru nokkrar valdar tilvitnanir í fólk. Flest orðin féllu þegar talað var um ofurlaunin fyrir hrunið mikla síðla árs 2008.

„Almennt talað eiga hluthafarnir, ekki starfsmennirnir, kröfu í afganginn af rekstri fyrirtækja. En í fjármálageiranum er þessu snúið við; starfsmennirnir ákveða hversu mikið hluthafarnir fá, og halda svo afganginum.“

Frank Partnoy, lagaprófessor og fyrrverandi bankamaður. Financial Times, 3. ágúst 2005.

 „Sumpart er þessi launaþróun afsprengi alþjóðavæðingar fjármálafyrirtækja og í sjálfu sér ekkert við því að segja nema fagna því að fyrirtækjunum skuli vegna vel og þar með þeim sem fyrir þeim fara.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Björgvin Sigurðsson. Bjorgvin.is, 5. ágúst 2005.

„Góður forstjóri þarf fyrst og fremst að hafa margföld laun og eftirlaunarétt sem nær út fyrir gröf og dauða á meðan lífeyrissparnaður hinna er notaður í útrásir að þeim látnum.“

Kristófer Már Kristinsson. Morgunblaðið, 24. ágúst 2005.

Það eru ótvíræðir hagsmunir atvinnulífsins að almenningur missi ekki trú á öflugustu fyrirtækjum landsins af því honum finnist sem þar sé ný yfirstétt búin að hreiðra um sig, sem skammtar sér laun og hlunnindi að eigin geðþótta.“

Reykjavíkurbréf. Morgunblaðið, 8. janúar 2006.

„Hvernig þætti mönnum að Flugleiðir hefðu þann hátt á að hafa fallhlífar einungis fyrir farþega á „business class“?

Ólafur Hannibalsson. Fréttablaðið, 11. janúar 2006.

„Hagvöxturinn er hinn mikli sáttasemjari mannlífsins. Í frjálsu hagkerfi er bakaríið í fullum gangi.“

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor. Fréttablaðið, 3. febrúar 2006.

„Ofurlaun eru gárur á yfirborði. Undir niðri er þungur straumur fjár til alls almennings í krafti framfara.“

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor. Fréttablaðið, 3. febrúar 2006.

„Stjórnendur bankanna leggja höfuðáhersluna á að auka sem mest eigin gróða og greiða sjálfum sér ofurlaun sem eru víðsfjarri íslenskum veruleika. Almenning nota þeir einungis til að hámarka gróða sinn.“

Sigurður T. Sigurðsson, fyrrverandi formaður Hlífar. Fréttablaðið, 23. júní 2006.

„Það er ekkert vit í að meta einn starfsmann tvö hundruð sinnum verðmætari en annan þegar kemur að launagreiðslum hjá fyrirtæki.“

Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, þáverandi varaforseti ASÍ. Morgunblaðið, 3. ágúst 2006.

„Ég held að þetta snúist um svo fáa einstaklinga að þetta skipti ekki máli í stóru myndinni.“

Einar Sveinsson, þáverandi stjórnarformaður Glitnis um ofurlaun. Morgunblaðið, 4. ágúst 2006.

„Hluthafar eru eðlilega sáttir að þeir skili svona miklu, því það þýðir einfaldlega að hlutabréfaverðið hefur þróast á jákvæðan hátt.“

Sigurður Einarsson, þáverandi stjórnarformaður Kaupþings um ofurlaun. Morgunblaðið, 4. ágúst 2006.

„Því er haldið fram að strákarnir séu að spila í sama liði og einhverjir aðrir. Hversu áreiðanlegt er það? Eru fyrirtækin sem þeir spila á móti af sömu stærðargráðu? Er verið að horfa til Ameríku? Er Evrópa svona?“

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir, varaformaður Eflingar um ofurlaun. Morgunblaðið, 4. ágúst 2006.

„Ég skil hvorki upp né niður í mönnum sem telja að þeir eigi að hafa 22 milljónir á mánuði.“

Kristján Gunnarsson, þáverandi formaður Starfsgreinasambandsins. Morgunblaðið, 4. ágúst 2006.

„Það er ekki hægt að verðmeta starf á yfir 20 milljónir á mánuði.“

Aðalsteinn Baldursson, formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur. Morgunblaðið, 4. ágúst 2006.

„Við höfum lifað hér á undanförnum áratug á Íslandi tíma þar sem frjálshyggjan hefur ráðið ríkjum og hún hefur átt ríkan þátt í því að brjóta niður siðræn viðhorf og samfélagsvitund.“

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar. Morgunblaðið, 5. ágúst 2006.

„Það sé svo til að bíta höfuðið af skömminni að þessi ofurlaun eru vægar skattlögð en nokkurs staðar annars staðar í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.“

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG. Morgunblaðið, 5. ágúst 2006.

„Ef sá vöxtur sem birtist í hagnaði af kaupréttarsamningum stjórnenda stærstu fyrirtækjanna er vandamál, þá er líklega eina raunhæfa lausnin til að ná tökum á því vandamáli að ná verri árangri í heimi alþjóðaviðskipta. Er það hagur þjóðarinnar?“

Hafliði Helgason, þáverandi ritstjóri Markaðarins. Fréttablaðið, 9. ágúst 2006.

„Það þarf engum að koma á óvart að landsmenn þvingaðs jafnaðar skuli fordæma það að fólk uppskeri eins og það sái.“

Friðbjörn Orri Ketilsson. Morgunblaðið, 11. ágúst 2006.

„Ég hef ekki séð aðra betri leið en að tengja kjör stjórnenda við afkomu og virðisauka hlutafjár.“

Sigurður Einarsson, fyrrum stjórnarformaður Kaupþings. Morgunblaðið, 11. apríl 2006.

„Þessi frjálsræðisþróun hefur leitt fram nýja krafta í atvinnulífinu, sem hafa náð stórkostlegum árangri á mörgum sviðum. En flokkarnir sem að þessu stóðu gleymdu einum mikilvægum þætti. Þeir gleymdu að setja upp girðingar, sem eru alls staðar nauðsynlegar, bæði hér og annars staðar.“

Reykjavíkurbréf. Morgunblaðið, 13. ágúst 2006.

„Frelsið, með öllum sínum kostum og göllum, hefur verið leitt til hásætis í peningalegu tilliti.“

Ellert B. Schram. Fréttablaðið, 19. ágúst 2006.

„Eina alvörutilraunin til að koma í veg fyrir einokun, sem gerð hefur verið á síðustu árum, fjölmiðlafrumvarpið svokallaða, var stöðvuð, m.a. með aðstoð forseta landsins.“

Hallgrímur Magnússon, stjórnarformaður einkahlutafélags. Morgunblaðið, 3. september 2006.

„Fjármálafyrirtækin hafa skapað þúsundir hálaunastarfa þar sem löggjöf er hindrunarlaus og álögur lágar. Viðskiptafrelsi er hin hliðin á jafnaðarstefnunni.“

Björgvin G. Sigurðsson, nýorðinn viðskiptaráðherra. Morgunblaðið, 1. júlí 2007.

„Hvar eru peningarnir sem hafa verið teknir út úr íslensku samfélagi á undanförnum árum og hefur gert Ísland að einu af skuldugri ríkjum heims?“

Jón Bjarnason alþingismaður. Morgunblaðið, 19. júní 2008.

 

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: