- Advertisement -

Þingmenn sem brjóta gegn eigin þjóð

Leiðari „Fjöldi þingmanna hefur ekki farið að reglum Alþingis um endurgreiðslu aksturskostnaðar. Reglur forsætisnefndar gera ráð fyrir að þingmenn sem aka umfram 15 þúsund kílómetra á ári vegna vinnu sinnar skuli færa sig yfir á bílaleigubíl sem Alþingi leggur til.“

Þannig hefst forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag. Þó Ásmundur Friðriksson sé sá sem mest tekur til sín er hann fjarri því að vera einn um þetta athæfi.

Þingmenn hafa tekið opinbera peninga ófrjálsri hendi. Peninga sem þeim bar ekki að fá. Í ofanálag hafa þeir séð til þess að hinir illa fengnu peningar eru skattfrjálsir. Það ákváðu sömu þingmenn og samþykkja að öryrkjar og eldri borgarar séu skertir um hverja krónu sem þeir afla sér. Þetta er óþolandi hugarfar og með öllu ólíðandi.

Græðgishugsun þingmanna er stórskemmandi. Samtrygging þeirra hefur alltaf verið ótrúlega mikil og gengið þvert á flokka. Sem sést vel núna. Flestir þeirra þegja og leita skjóls sér í Ásmundi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Sumir hafa orðið við þeim tilmælum en aðrir ekki. Við höfum skilning á því að þeir þurfi einhvern aðlögunartíma,“ sagði Karl M. Kristjánsson, aðstoðarskrifstofustjóri Alþingis, við Fréttablaðið. Þann skilning getur starfsfólk Alþingis átt einan og óskertan. Almenningur í landinu sýnir gírugum þingmönnum engan skilning. Ekki einn einasta.

Almenningur í landinu verður að stöðva óheiðarlega framgöngu alþingismanna. Strax. Þingið ætlar ekki að gera það. Engir forsvarsmenn flokkanna hafa opnað munninn um þetta, að undaskildum Pírötum. Þökk sé fyrir Pírata. Ég nánast skammast mín fyrir að hafa ekki kosið þann flokk.

Með óhófi lýkur frelsinu. Þingmenn hafa ofboðið hugarfari yfirboðara sinna, það er þjóðinni. Nú skal Alþingi birta brúttólaun og greiðslur allra þingmanna, hverja einustu, einustu krónu og eins skal verða birt á vef Alþingis hvaða þingmenn eru fjarrverandi hverju sinni og hvers vegna og saman verði dregið hver mæitng þeirra er á þingfundi og nefndarfundi. Þingheimi er ekki treystandi. Það er miður, en það er staðreynd.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hafði frumkvæði að því að fá upplýsingarnar sem nú skekja allt. Alþingi Íslendinga, með forseta þess fremstan í flokki, reyndi að dulkóða upplýsingarnar svo ekki spyrðist út hvaða þingmenn hafa sér verst. Sú vonlausa tilraun mun ekki heppnast.

Ekki er að efa að enginn einn þingmaður er óvinsælli á sínum vinnustað en Björn Leví. Þeir tveir þingmenn sem hafa tjáð sig um sjálftöku þeirra sjálfra, Páll Magnússon og Brynjar Níelsson, hafa báðir reynt að verja það háttarlag sem tíðkast. Páll beinlínis hótar þjóðinni að hann ætli að ná sér í enn meiri peninga, þrátt fyrir að mega það ekki, og Brynjar vill að þingmenn sem hafa minni möguleika til að græða á akstri, það eru þingmenn þéttbýlisins, fái að drekka á börum borgarinnar á kostnað Alþingis, það er almennings.

Það er mikið framundan í íslensku samfélagi. Þingmenn ættu margir hverjir að segja af sér fyrir að hafa tekið sér illa fengna peninga, hið minnsta ættu þeir að skammast sín boða bót og breytingar. Lögreglan rannsakaði sjálfa sig og viðurkenni vanhæfi sitt, en samt verður engu, eða sem minnstu breytt. Áfram skal haldið í samtryggingu.

Sigurjón M. Egilsson.


Booking.com

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: