- Advertisement -

Tökum valdið úr höndum elítunnar

Ræða Sönnu Magdalenu Mörtudóttur flutt á 100 ára afmælis fullveldisins:

Í heimi þar sem þar sem hvítir, miðaldra, ófatlaðir, gagnkynheigðir millistéttar karlmenn eru viðmiðið, virðast aðilar sem flokkast ekki inn í þann kassa vera taldir sem óæðra frávik sem megi hæðast að, lítillækka og smána, til upphafningar áðurnefndra karlmanna. Á mælikvarða þeirra eru konur metnar að verðleikum út frá útliti sínu, þær eru annað hvort „helvíti sætar“ og eigi því skilið að ná langt í starfsframa sínum eða í lífinu almennt eða þá að þurfa að sætta sig við óvinsældir ef þær eru ekki jafn „hot“ og áður því það fellur svo hratt á þær. Slíkt tungutak viðheldur og styður þá kvenfyrirlitningu sem hefur viðgengist og grasserað í samfélaginu okkar.

Ef það er ekki vegið að útliti kvenna þá er það meint gáfnafar og hæfni þeirra sem er dregin í efa af hvítum, millistéttar, valdamiklum körlum. Kvenfyrirlitningin birtist í því að ef kona er ekki valdamiklum karlmönnum að skapi, þá er dregin upp mynd af henni sem „húrrandi klikkaðri kuntu“, „fokkin trylltri“, „kræfri kerfiskerlingu“ eða þá að „hún viti ekki neitt, kunni ekki neitt og geti ekki neitt“. Við virðumst lifa í karlaheimi þar sem einsleitur hópur karla virðist vera stór hluti þeirra sem fara með völdin í samfélaginu okkar. „Konum sé ekki treystandi“ því þær „spili á karlmenn eins og kvenfólk kann“. Ef það er ekki útlitið, ef það er ekki framkoman þá eru konur lítillækkaðar með því að líkja þeim við dýr.

Ég neita að lifa í þannig samfélagi þar sem að karlmenn sem fara með völd komast upp með það að láta svokallaðar afsökunarbeiðnir sínar snúast um hversu erfitt lífið sé nú fyrir þá og reyna að varpa ábyrgðinni yfir á aðra þætti eða aðra einstaklinga. Ég neita að lifa í samfélagi þar sem karlmenn sem hafa orðið þess uppvísir um að tala niður til annarra þjóðfélagshópa, nýta kastljósið til að láta umræðuna snúast um sig, í stað þess að horfast í augu við það að þeir eru hluti af vandanum, það eru gjörðir þeirra og orð sem viðhalda hugmyndafræðinni sem lítur niður á konur, hugmyndafræðinni sem lítur niður á þá sem falla ekki að þessu viðmiði um að vera millistétta, gagnkynhneigður, miðaldra, ófatlaður karlmaður. Með því að nýta tungutak sem gerir lítið úr öðrum er því óréttlæti og mismunun sem ýmsir hópar verða fyrir, viðhaldið og lítið er gert úr þeirri jafnréttisbaráttu sem við höfum verið að berjast fyrir síðustu ár og áratugi.

Ég neita að lifa í þannig samfélagi þar sem að við almenningur þurfum að aðlaga okkur að þörfum og væntingum millistétta, valdamikilla þingmanna sem að þurfi sjálfir að taka sér pásu til að jafna sig eftir að hafa orðið uppvísir um hatursfullt tal í garð annarra. Ég neita að samþykkja að ábyrgðinni sé kastað yfir á aðra og að þeir séu fórnarlömb þar sem ráðist hafi verið inn í persónulegt rými þeirra. Nú fenguð þið kannski smjörþef af því hvernig okkur hinum líður oft dagsdaglega. Hversu valdalaus við upplifum okkur þegar kemur að því að verja persónulegt rými okkar. Því langar mig til að spyrja þá sem halda uppi orðum kvenfyrirlitningar hversu oft þeir hafi þurft að labba heim að næturlagi hræddir með lyklanna í hendinni, tilbúnir til að stinga einhvern ef til þess kæmi? Hversu oft hafið þið þurft að sitja undir því að vera taldir of eigingjarnir fyrir að eltast við starfsframa um leið og þið eignist börn? Hversu oft hafið þið þurft að hafa áhyggjur af því að litið verið niður til ykkar ef þið eigið marga rekkjunauta eða er það jafnvel kannski eitthvað sem þið stærið ykkur af í samtölum ykkar á milli í reykfylltum bakherberjum? Þurfið þið að tilkynna sérstaklega kynheigð ykkar, eða þurfið þið að hafa áhyggjur af því að öðrum gæti fundist hún óþægileg? Þurfið þið að hafa áhyggjur af óviðeigandi spurningum og athugasemdum um líkamlega færni ykkar? Þurfið þið að setja undir því að einhver geri grín að líkama ykkar? Einhvernveginn efast ég stórlega um það.

Auglýsing

Ég neita að lifa í samfélagi þar sem einsleitur hópur valdaelítu lætur umræðuna um hversu sært egó þeirra sé, þegar þegar þeir verða þess uppvísir um að niðra fjöldann allan af ólíkum jaðarsettum hópum samfélagsins á einu bretti. Ég neita að lifa í samfélagi þar sem þeir fá valdið og rýmið til að ræða hversu hart þeim finnist vegið að þeim. Ég vil lifa í samfélagi þar sem að raddir hópa sem hafa verið kúgaðir í gegnum tíðina fær allt sviðsljósið. Það eru þær raddir sem eiga að stýra umræðunni sem móta það á hvað við leggjum áherslu á, í átt að bættu samfélagi. Í baráttunni fyrir jafnrétti vil ég heyra raddir þeirra hópa sem hafa upplifað valdaleysi og hvernig þeir hópar vilja breyta samfélaginu okkar í átt til hins betra.

Ég vil heyra raddir kúgaðra fátækra kvenna, ég vil heyra raddir fatlaðs fólks, ég vil heyra raddir hinsegin fólks, ég vil heyra raddir innflytjenda, ég vil heyra raddir þeirra með erlendan bakgrunn, ég vil heyra raddir lífeyrisþega, ég vill heyra raddir öryrkja, ég vill heyra raddir eldri borgara. Ég vil heyra raddir allra annarra en hrokafullra valdamikilla hvítra millistétta karla sem hafa fengið að fara með völdin í samfélaginu í allt of langan tíma.

Á afmælisdegi fullveldisins skulum við taka valdið úr höndum elítunnar og færa það til fólksins.

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: