- Advertisement -

Trúir ekki að verkföllum verði beitt

Undrast framhleypni verkalýðshreyfingarinnar sem sækir umboð sitt til „...10–15% félagsmanna sinna...“

„Það er ljóst af ræðum forsvarsmanna verkalýðshreyfingarinnar þann 1. maí sl. að fram undan er erfiður vetur í kjaraviðræðum,“ sagði Þorteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

„Það er áhyggjuefni út af fyrir sig miðað við þann góða árangur sem hefur náðst í kaupmáttaraukningu á undanförnum árum að hér stefni í mikinn ófrið á vinnumarkaði í vetur og jafnvel harðar verkfallsdeilur og ber vitni um að ríkisstjórninni hefur ekki tekist að skapa traust á milli aðila vinnumarkaðarins þrátt fyrir stíf fundarhöld með þeim. Henni hefur ekki tekist að fullvissa aðila vinnumarkaðarins, sér í lagi forystumenn verkalýðshreyfingarinnar, um að í stefnu hennar sé að finna raunverulegar lausnir til að bæta kjör almennings hér á landi,“ sagði hann.

„Ég er hugsi yfir þeim yfirlýsingum forystumanna verkalýðshreyfingarinnar sem snúa að pólitískum álitaefnum,“ sagði Þorsteinn og bætti við:

„Ég trúi því ekki að það eigi að fara að beita verkfallsdeilum í vetur til að knýja fram pólitísk forgangsmál verkalýðshreyfingarinnar því að vinnudeilur eiga að snúast um deilur um kaup og kjör, ekki pólitíska forgangsröðun. Það er hlutverk þingsins og það er raunar mjög mikilvægt að hafa það í huga og má alveg spyrja sig hvaða pólitíska umboð verkalýðshreyfingin sem kjörin er af 10–15% félagsmanna sinna hafi til þess að setja þinginu stólinn fyrir dyrnar um forgangsröðun í velferðarmálum, menntamálum og húsnæðismálum þótt vissulega séu sjónarmið þeirra í þessum efnum öllum gríðarlega mikilvæg.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: