- Advertisement -

Útgerðin sætir lagi með þrjá framsóknarflokka í ríkisstjórn

Umræðan Þorsteinn Víglundsson, alþingismaður og fyrrum framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, skrifar fína færslu á Facebook.

„Útgerðin telur greinilega lag að sækja lækkun veiðgjalda hjá framsóknarflokkunum þremur. Þar á bæ virðist líka ríkja einhugur um málið ef marka má yfirlýsingar. Nú á að beita litlum og meðalstórum fyrirtækjum fyrir vagninn þó svo þegar séu afslættir veittir af veiðigjöldum til smærri útgerða. Rétt er þó að hafa í huga að stærstur hluti aflaheimildar er á höndum nokkuð fárra en stórra útgerða.

Það er ágætt í þessu samhengi að hafa nokkur atriði í huga. Í fyrsta lagi er veiðigjald ekki skattur á útgerðina heldur gjald fyrir aðgang að hráefni, þ.e. fiskinum í sjónum sem er sameiginleg auðlind þjóðarinnar. Í öðru lagi er arðsemi sjávarútvegs að jafnaði mun meiri en annarra fyrirtækja hér á landi og hefur verið svo lengi. Greinin er því augljóslega fær um að greiða fyrir aðgang sinn að auðlindinni. Íslenskur sjávarútvegur greiðir lægra auðlindagjald en t.d. í Færeyjum.

Það að auðlindagjaldið hækkar talsvert nú er annars vegar vegna hagstæðs viðmiðunarárs 2015 og hins þar sem sérstakir afslættir vegna mikillar skuldsetningar hrunáranna eru að falla brott. Það er rétt að afkoma greinarinnar er lakari nú en 2015 það er vafalítið íþyngjandi að greiða af því ári nú, en að sama skapi naut greinin þess að greiða lágt veiðigjald á árinu 2015 við hagstæðar kringumstæður.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það er mjög mikilvægt að sjávarútvegur sé vel rekin og arðbær atvinnugrein og því ánægjulegt hversu vel hefur gengið í greininni. Að sama skapi er það hins vegar sjálfsagt réttlætismál að greinin greiði sanngjarnt gjald fyrir aðgang sinn að auðlindinni. Heppilegast væri að gjaldið taki mið af afkomu greinarinnar hverju sinni en ekki fyrir 2-3 árum síðan og því er endurskoðun núgildandi kerfis sjálfsögð. Það er hins vegar áhyggjuefni að útgangspunktur stjórnvalda við slíka endurskoðunar sé lækkun gjaldsins,“ skrifar Þorsteinn.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: