- Advertisement -

Útgerðin sýnir sjómönnum óþolandi virðingarleysi

Vinnumarkaður Árni Bjarnason, formaður Félags skipstjórnarmanna, skrifar langa grein í Morgunblað dagsins, þar sem hann skýrir, með sínum hætti, stöðuna í kjaradeilu sjómanna og útgerðarinnar. Sjómenn hafa ekki haft gildan kjarasamning í sex ár.

„Frá sjónarhóli sjómanna er ekki annað að sjá en þann dapurlega veruleika, að mat útgerðarmanna sé það að allir þættir í rekstri útgerðarfyrirtækja séu brýnni og mikilvægari en sá þáttur, að semja við sjómenn. Neikvætt viðhorf og vaxandi virðingarleysi í þeirra garð er einfaldlega óþolandi,“ endar Árni grein sína.

Kaupmáttur útgerðarinnar hefur hækkað meira

„…frá hruni hafa þessi fyrirtæki skilað gríðarlegum hagnaði, á sama tímabili nánast þurrkað út hundraða milljarða skuldir, greitt eigendum sínum 49 milljarða í arð, tugi milljarða í skatta og veiðigjöld auk þess sem fjárfest hefur verið í nýlegum eða nýjum skipum fyrir 30-40 milljarða. Allt sem hér er upptalið bendir til að maður þurfi ekki að vera neinn Sherlock til að finna út að kaupmáttur útgerðarmanna hafi jafnvel toppað sjómennina. Í öllu falli fjölgar starfskröftum á skrifstofum SFS og stórútgerðanna á meðan sjómönnum fækkar.“

Vinna í þrjátíu tíma án hvíldar

„Þegar opnað var á möguleikann fyrir fækkun í áhöfn í samningnum 2004 var það gert í trausti þess að þegar frá liði myndi fjöldi í áhöfnum leita jafnvægis þar sem tekið væri tillit til afkasta, gæða, hæfilegs vinnuálags og öryggis skips og áhafnar í öllum skipaflokkum. Allir þessir þættir byggjast á að ekki sé um undirmönnun að ræða og ljóst er að ákveðnir útgerðarmenn hafa því miður brugðist því trausti sem þeim var sýnt. Afleiðingin er sú að um þessar mundir er vinnutími þeirra sjómanna sem eftir eru í allt of mörgum tilfellum allt of langur og kominn langt út fyrir það sem hægt er að skilgreina í námunda við eðlilegt vinnuframlag. Þannig segjast tæp 70% sjómanna vinna frá 13 tímum upp í 31 tíma eða þaðan af meira án hvíldar, eins og fram kemur í skoðanakönnun Samgöngustofu um aðstæður sjómanna.“

 

 

Aukinn kaupmáttur með mikilli vinnu

„Þetta segir meira en mörg orð um hvernig kaupmáttaraukning sjómanna er til komin. Þ.e.a.s. með stóraukinni vinnu þar sem þverbrotin eru öll ákvæði um lágmarkshvíldartíma sem í raun leiðir til þess að heilsu og öryggi manna er ógnað umfram það sem eðlilegt getur talist. Kaupmáttur meðallauna sjómanna frá árinu 2008 hefur að sögn aukist um 6,5% en kaupmáttur á almennum vinnumarkaði dregist saman um 2,7% á sama tíma. Niðurstaða talsmanns útgerðarmanna er sú að sjómenn hafi enga skerðingu tekið á sig í hruninu á meðan almenningi blæddi. Upplýsandi væri að skoða hvernig þessum málum var háttað á árunum fyrir hrun þegar vart fengust menn til að fara út á sjó vegna lélegrar afkomu.

Fram kom í Morgunblaðinu að samtök útgerðarmanna hefðu hækkað kaupliði kjarasamnings við sjómenn í samræmi við almennar launahækkanir frá því 2011, sem þýðir að kauptrygging (mánaðarlaun) háseta er um þessar mundir samkvæmt gildandi kjarasamningi heilar 234 þúsund krónur plús fatapeningar kr. 4.970 pr. mánuð, mínus kostnaðarþátttaka sjómanna í tryggingum, 4.120 kr. á mánuði, auk skattlagðra fæðispeninga, sem eru frá 959 kr. til 1.593 kr. eftir stærð og úthaldi skipa,“ skrifar Árni Bjarnason.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: