- Advertisement -

Vandinn er lág laun og húsnæðiskreppa

Sanna Magdalena Mörtudóttir skrifar: Bókanir eru stuttar athugasemdir við dagskráliði funda og mega vera hámark 200 orð. Hér er það sem ég hefði vilja láta færa til bókar í borgarráði í dag, varðandi yfirlit aðgerða sem ætlað er að tryggja nægja mönnun í leikskólum borgarinnar haustið 2018 (styttri, 199 orða útgáfan má svo finna í fundargerð);

Ófaglært starfsfólk leikskóla Reykjavíkur er með allra lægst launaða fólki landsins, býr við kjör sem vart duga fyrir framfærslu.

Í minnisblaði um yfirlit aðgerða sem ætlað er að tryggja næga mönnun í leikskólum borgarinnar kemur fram að auglýsingar hafi verið liður í því að leitast við að vekja áhuga fólks á leikskólastarfi, m.a. undir yfirskriftinni „Langar þig að vinna með framtíð landsins?“ Þessum auglýsingum er beint að ófaglærðu starfsfólki í von um að það ráði sig til starfa og bjargi með því leikskólum borgarinnar, þessari mikilvægu þjónustu varðandi menntun barna og þroska, kynjajafnrétti á vinnumarkaði og lífskjör barnafjölskyldna. Að baki þessum auglýsingum er ekki heill hugur.

Ófaglært starfsfólk leikskóla Reykjavíkur er með allra lægst launaða fólki landsins, býr við kjör sem vart duga fyrir framfærslu. Fólk á þessum launum og sem er fast á leigumarkaði hefur fæst nokkra möguleika til að láta launin duga fyrir framfærslu. Þetta tvennt, launin sem Reykjavíkurborg borgar fólkinu sem sinnir börnunum okkar og húsnæðiskreppan, sem er afleiðing þeirrar húsnæðisstefna sem borgin hefur rekið, segir miklu meira um hvernig Reykjavíkurborg hlúir að framtíð borgarbúa en fagurgali í auglýsingum.

Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins telur það ábyrgðarhluta að borgin dragi upp falska mynd af afstöðu sinni til ófaglærðs starfsfólks á leikskólum borgarinnar. Í reynd skilur borgin þetta fólk eftir með laun sem ekki er hægt að lifa af á húsnæðismarkaði sem blóðmjólkar varnarlaust fólk á sama tíma og byggt er upp offramboð af lúxusíbúðum.

Án ófaglærðs starfsfólks myndi velferðarkerfi borgarinnar, leikskólar og grunnskólar hrynja niður.

Án ófaglærðs starfsfólks myndi velferðarkerfi borgarinnar, leikskólar og grunnskólar hrynja niður. Niðurfelling skatta á fyrirtæki og efnafólk hefur leitt til hagræðingarkröfu og niðurskurðar sem hefur aukið vinnuálag á ófaglært starfsfólk, enn auknar byrðar ofan á linnulausar fjárhagsáhyggjur hinna fátæku. Saman veldur þetta gríðarlegu andlegu og líkamlegu álagi, kulnun og uppgjöf, niðurbroti fólks sem á það síst af öllu skilið.

Ef Reykjavíkurborg vill vinna að framtíð landsins með ófaglærðu starfsfólki verður borgin að hækka launin og leysa húsnæðiskreppuna. Borgin á ekki að slá um sig slagorðum mótuðum á auglýsingastofum. Þau slagorð eru móðgun við fólkið sem vinnur lægst launuðu störfin og heldur velferðarkerfum samfélagsins gangandi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: