- Advertisement -

Vanmat Vinstri grænna

Fjölmiðlar í lykilhutverki lýðræðsins. „Það þýðir að ekki sé hægt að setja lögbann á fjölmiðil þegar miðlað er upplýsingum sem koma sér illa fyrir stjórnmálaflokk korter fyrir kosningar.“

Stjórnmál „Ég hef áhyggjur af því að með því að leiða flokk til valda sem hefur síendurtekið staðið gegn lýðræðisumbótum og verið staðinn að því að misnota vald sitt hafi Vinstri hreyfingin – grænt framboð vanmetið hvað það er sem verður þjóðfélaginu sem heild til heilla til lengri tíma og munu algerlega missa marks þegar kemur að því að byggja upp traust á stjórnmálum og Alþingi og styrkja lýðræðið á Íslandi,“ sagði Halldóra Mogensen Pírati í umræðunni á Alþingi í gærkvöld. „

Lykilatriði í styrkingu lýðræðisins er að tryggja lagaumhverfi sem gerir fjölmiðlum kleift að miðla upplýsingum sem teljast mikilvægar í pólitísku samhengi og eiga erindi til almennings,“ sagði hún og bætti við.

„Það þýðir að ekki sé hægt að setja lögbann á fjölmiðil þegar miðlað er upplýsingum sem koma sér illa fyrir stjórnmálaflokk korter fyrir kosningar. Traust á stjórnmálum og Alþingi felst í bættum vinnubrögðum og lýðræðislegum ferlum sem tryggja aðkomu almennings alls, ekki bara sérhagsmunaafla, að stefnumótun, samningu laga og ákvarðanatöku. Það á enginn að geta, í krafti fjármagns eða frændhygli, komið hagsmunamálum sínum á framfæri fram yfir hagsmuni almennings. Aðkoma almennings að ákvarðanatöku er gífurlega mikilvæg þar sem hún hefur þær afleiðingar að dreifa valdinu sem og ábyrgðinni. Með valdeflingu almennings drögum við úr spillingu og valdeflum á sama tíma þingmenn til að finna nauðsynlegt hugrekki til að knýja fram þær breytingar sem þörf er á til að geta mætt framtíðinni með áætlun sem þjónar heildinni og þar af leiðandi framþróun samfélagsins alls. Þetta eru meiri hagsmunirnir. Sérstaklega í ljósi þeirra stórkostlegu breytinga sem við stöndum frammi fyrir, ekki bara Íslendingar heldur mannkynið allt. Við verðum að þróast ef við ætlum að lifa þær af.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: