- Advertisement -

Vaxandi misskipting auðsins

- Katrín Jakobsdóttir gagnrýnir að ríkidæmi sé ekki skattlagt með sama hætti og flest annað.

Alþingi „Hér á Íslandi þarf stjórnvöld sem treysta sér til að útrýma fátækt. Um það hefur ekki verið eining á Alþingi þó að sumir stjórnmálamenn tali eins og hér séu allir sammála um tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins. En við höfum ekki verið sammála um að hlutverk skattkerfis sé að tryggja jöfnuð,“ sagði Katrín Jakobsdóttir á Alþingi í gærkvöld.

„Hér þarf stjórnvöld sem eru reiðubúin að horfast í augu við og bregðast við því að ríkustu 10% eiga þrjá fjórðu alls auðs í landinu. Launajöfnuðurinn sem hæstv. forsætisráðherra nefndi hér áðan er nefnilega aðeins annar hluti myndarinnar um hið jafna samfélag. Eignaskiptingin segir talsvert aðra sögu,“ sagði hún.

„Vaxandi misskipting auðsins sprettur beinlínis af pólitískum ákvörðunum sem hingað til hafa verið þær að ekki megi skattleggja auðinn, ekki megi skattleggja fjármagnseigendur eins og venjulegt launafólk, ekki megi setja sérstakt hátekjuþrep á verulega háar tekjur eins og þær til að mynda sem skila sér í kaupaukagreiðslum sem margir þingmenn flytja gjarnan vandlætingarræður um en heykjast svo á að taka á í gegnum skattkerfið.

Hið sama má segja um þær pólitísku ákvarðanir sem hafa verið teknar um bótakerfin, vaxtabætur og barnabætur, sem nýtast æ færra fólki. Á bak við það eru líka pólitískar ákvarðanir sem hafa ekki miðað að því að auka jöfnuð og draga úr misskiptingu, heldur þvert á móti. Hér þarf stjórnvöld sem eru reiðubúin að taka pólitískar ákvarðanir til að útrýma fátækt og draga um leið úr misskiptingu.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: