- Advertisement -

Vaxtahækkunin er í boði Alþingis

Þorsteinn Víglundsson segir ekki við Seðlabankann að sakast þegar vextir eru hækkaðir, hann fari einfaldlega að lögum.

„Það eru mjög skiljanlegar kvartanir en við ættum kannski að beina þeim að okkur sjálfum en ekki Seðlabankanum,“ sagði Þorsteinn Víglundsson á Alþingi í gær um vaxtahækkanirnar sem Seðlabankinn boðar.

„Á sama tíma og ótvíræð merki um kólnun í hagkerfinu birtast okkur í hvívetna hefur Seðlabanki Íslands tekið ákvörðun um að hækka vexti um 25 punkta til að sporna gegn verðbólgu. Skiljanlega heyrast háværar kvartanir og spurt hvernig þetta liðsinni atvinnulífinu, hvaða liðsinni felist í því inn í kjaraviðræður að á sama tíma og hagkerfið er að kólna sé verið að hækka vaxtastigið í landinu,“ sagði hann.

„Seðlabankinn starfar eftir lögum sem honum eru sett hér í þessum sal um að fylgja 2,5% verðbólgumarkmiði. Það verðbólgumarkmið hefur verið rofið og Seðlabankinn hefur engin önnur úrræði en að hækka vexti. Hann gerir það í hálfgerðum afsökunartón af því að bankinn áttar sig alveg á þeirri stöðu að vera að hækka vaxtarstig ofan í kólnandi hagkerfi.“

Þorsteinn sagði þetta ekkert nýtt. „Við höfum alltaf séð þessa sömu sveiflu áður. Þegar krónan veikist hækkar verðbólgan og Seðlabankinn hækkar vexti. Þetta gerðist líka á árunum 2008–2010. Þetta gerðist líka á árunum 2001–2003. Á sama tíma og hagkerfið okkar, atvinnulífið, þurfti á örvun að halda frá Seðlabankanum bar Seðlabankanum skylda til að hækka vexti af því að lög frá Alþingi segja honum að svo beri honum að gera.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Svo vék hann að peningastefnunni og sagði núverandi stefnu ekki virka.

„Við ættum kannski að kvarta aðeins minna yfir Seðlabankanum og taka höndum saman í þingsalnum um að breyta þessari peningastefnu því að hún er alveg augljóslega ekki að virka. Árangurinn er afleitur. Verðbólga hefur verið hér langtum hærri en í nágrannalöndum okkar, vaxtarstig langtum hærra en í nágrannalöndum sömuleiðis. En við skulum líka átta okkur á því að vaxtahækkun Seðlabankans í morgun er í boði Alþingis, ekki Seðlabankans.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: