- Advertisement -

Verðlaunaður fyrir framlag til umhverfisverndar

Verðlaunuðu hlauparann Eyþór Hannesson.

Náttúruverndarsamtök Austurlands verðlaunuðu hlauparann Eyþór Hannesson á degi umhverfisins á þriðjudag. Eyþór hefur safnað rusli á hlaupaferðum sínum og leggur mikla áherslu á að flokka það líka.
„Maður horfir upp á allt þetta rusl en sér engan tíma það. Ég hugsaði því með mér: „Ég fer bara í þetta“,“ segir Eyþór.

Hann varð í vikunni fyrstur til að hljóta viðurkenningu NAUST sem stefnt er að því að veita árlega á degi umhverfisins fyrir að vekja athygli á náttúruvernd.

Um tíu ár eru síðan Eyþór byrjaði að hlaupa – og um leið að tína ruslið. Hann bjó þá norður á Akureyri og ofbauð ruslið sem var meðfram veginum út að afleggjaranum á Dalvík. Það vakti Eyþór til umhugsunar þannig hann byrjað að safna drykkjarumbúðum í bakpoka.

Sumt augljóst, annað ekki

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þegar Eyþór, sem er uppalinn Borgfirðingur, fluttist aftur austur í Egilsstaði fyrir fjórum árum efldist hann enn frekar í söfnuninni. Hann hefur safnað rusli meðfram veginum yfir Fagradal, inn Velli og fleiri leiðum og svæðum á og við Egilsstaði.

„Það eru margir sem segjast ekki sjá ruslið en ég sé það alls staðar. Ég var í málningarvinnu í mörg ár og þetta er eins og í henni, þegar ég kem inn í hús byrja ég alltaf á að skanna veggina.“

Sumt er augljóst en annað ekki. Ruslið fýkur ofan í skurði en stundum finnur Eyþór það með að stíga ofan á það í vegaköntunum. Hann segir ruslið meðfram þjóðvegunum vera hent út úr bílum en það sem sé innan þéttbýlismarkanna fjúki frá heimilum og vinnustöðum.

Mikilvægt að flokka

Eyþór fer sérstakar ferðir til að tína ruslið því annars yrði lítið úr hlaupunum. Bakpokinn dugir ekki, hann tínir í höldupoka eða stóra ruslapoka og lætur svo sækja sig.

„Ég var einhvern tíman að tína inni á Völlum og þá stoppaði fólk sem vorkenndu mér og spurðu hvort þeir gætu ekki tekið ruslið. Þeir ætluðu að henda því í næsta gám en ég sagði það það kæmi ekki til greina, þetta yrði að fara heim því ég ætti eftir að flokka.“

Hann fer heim með ruslið og flokkar áður en hann hendir. Hann birtir líka myndir af ruslinu á Facebook sem fengið hafa umtalsverð viðbrögð.

„Já, þetta fær heljarinnar viðbrögð. Svo eru umræður um þetta í vinnunni og víðar.“

Austurfrétt.is


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: