- Advertisement -

Verka- og láglaunafólk hefur fengið nóg

„Eða er virkilega ætlast til þess að verkafólk sætti sig við að búa í samfélagi þar sem ekki er augljóst hvor talar; forseti Alþýðusambands Íslands eða talsmaður Samtaka atvinnulífsins?“

Halldór Benjamín Þorbergsson og Gylfi Arnbjörnsson. „…ekki er augljóst hvor talar; forseti Alþýðusambands Íslands eða talsmaður Samtaka atvinnulífsins?“

„Nú hefur verka- og láglaunafólk fengið nóg. Það hefur tekið að láta í sér heyra. Það hefur kosið til forystu í sínum verkalýðsfélögum fólk sem hefur heitið því að láta kjör þess sig öllu varða í komandi kjarasamningum. Það hafa vaknað vonir um að loks sé komið tækifæri til að leiðrétta, með sjónarmið réttlætis og jöfnuðar að leiðarljósi, óásættanleg laun, óréttlátt skattkerfi og skelfilega vaxta- og skuldpíningu fjármálakerfisins, svo dæmi séu tekin af þeim málum sem helst brenna á íslenskri alþýðu,“ segir í yfirlýsingu Eflingar vegna auglýsingar sem Alþýðusambandið stendur að.

Yfirlýsingin er harðorð og löng, en hér er niðurlag hennar:

„Er svo komið að forysta ASÍ tekur án þess að skammast sín undir þær ómanneskjulegu kröfur sem auðstéttin gerir til lágtekjuhópanna, að hlutskipti þeirra sé eingöngu að vera þögult og stillt vinnuafl á útsöluverði, í samfélagi misskiptingar og sífellt vaxandi stéttskiptingar þar sem jafnvel hugmyndin um að eignast húsnæði er orðin að fjárlægri draumsýn?

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þegar málflutningur ASÍ er farinn að ríma svo rækilega við málflutning forkólfa fjármagnseigenda og auðkýfinga að varla má greina í sundur hvor talar hverju sinni hlýtur verkafólk að hugleiða vel og lengi þá fráleitu staðreynd og spyrja í kjölfarið: Er það ætlun þeirra sem stjórna tilveru okkar að ASÍ og SA renni saman í eitt risavaxið samfélagslegt stjórnunar-fyrirbæri?

Er ekki tímabært, þó ekki væri nema vegna hinna óboðlegu aðstæðna sem láglauna- og verkafólki er gert að lifa við í hinu stéttskipta íslenska samfélagi, að þau innan verkalýðshreyfingarinnar sem upplifa að sitt helsta hlutverk sé að grafa markvisst undan eðlilegum kröfum um góð lífskjör öllum til handa og samfélagi réttlætis og jöfnuðar, eitthvað sem eitt sinn var upphaf og endir baráttu verkafólks, líti í eigin barm og hugleiði hverra hagsmuna þau eru að gæta?

Er ekki tímabært að forysta ASÍ sjái sóma sinn í því að halda sér til hlés þegar svo er komið að enginn samhljómur er lengur á milli hennar og verkafólks?

Eða er virkilega ætlast til þess að verkafólk sætti sig við að búa í samfélagi þar sem ekki er augljóst hvor talar; forseti Alþýðusambands Íslands eða talsmaður Samtaka atvinnulífsins?“

 

 


Booking.com

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: