- Advertisement -

Við búum inní fáránlegri veröld

Við erum stödd í grafalvarlegum stéttaátökum þar sem yfirstéttin gerir ekkert til að draga úr óróa og reiði fólks yfir öllu því óréttlæti sem það er látið lifa við, heldur sýnir þvert á móti í auknum mæli forherðingu gagnvart vinnuaflinu.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflignar, talaði á fundi VG í Reykjavík um verkalýðsmál og sagði meðal annars þetta:

Við búum inní fáránlegri veröld, veröld pólitískrar stöðnunar þar sem múrar hafa verið reistir utan um hugmyndaheiminn og honum lokað af, ekkert er í boði annað en meira af því sama jafnvel þótt fólki um víða veröld bjóði við og hafni alfarið nýfrjálshyggjunni og þeirri mannkynssögulegu risalygi sem hún er grundvölluð á; að öllum sé best borgið með því að leyfa fámennum hópi að ákvarða efnahagslega stefnu en af því að við búum inní heimi nýfrjálshyggjunnar sem hefur í kjarnsýrunum sínum uppnám og óstöðugleika erum við undirseld einhverskonar félagslegri and-stöðnun, þar sem gólfið sem við stöndum á er á sífelldri hreyfingu, þar sem við verðum að hlaupa æ hraðar til þess eins að standa í stað, þar sem góðæri og niðursveiflur spilast út til skiptis með æ geigvænlegri auðsöfnun alþjóðlegrar yfirstéttar, þar sem fjármálavæddur alþjóðakapítalismi rekur af stað risavaxna hópa vinnuafls á milli landa til að leita sér að afkomu sem dugir til að komast af á, þar sem velferðarkerfin eru rekin á vinnu láglaunakvenna, þar sem óstöðugleikinn er raunveruleikinn, þar sem draumar eru ekki lengur í boði fyrir vinnuaflið og þeim tekið af móðursýki og vanstillingu fólks sem getur ekki séð fyrir sér efnahagslegt réttlæti en á í engum erfiðleikum með að lifa í veröld arðráns og kúgunnar.

Við stöndum frammi fyrir allskonar vandamálum, tilkomnum vegna þess að hagsmunir aðeins eins hóps hafa verið látnir ráða för í veröldinni. Við stöndum frammi fyrir afleiðingum þess að í stað þess að þeim sem leiddu efnahagslegar hörmungar yfir evrópska alþýðu væri refsað, kapítalistunum, var alþýðan látin finna fyrir refsivendinum, með öllu því samfélagslega uppnámi sem því fylgir þegar stórir hópar eru látnir bera ómanneskjulegar byrðar, og við stöndum frammi fyrir því að umhverfisváin er einfaldlega ekki leysanleg ef við getum ekki leyst það verkefni að sjá til þess að gæðunum sé rétt skipt í samfélaginu. Aðeins samfélag sem gætir að efnahagslegu réttlæti er fært um að takast á við þetta risavaxna verkefni sem við verðum að takast á við.

Það er augljóst að það er ekki lengur hægt að leyfa hinum auðugu sem koma innan úr hliðarveruleika fjármagnseigenda að halda áfram að leggja hinar efnahagslegu línur. Við erum stödd í grafalvarlegum stéttaátökum þar sem yfirstéttin gerir ekkert til að draga úr óróa og reiði fólks yfir öllu því óréttlæti sem það er látið lifa við, heldur sýnir þvert á móti í auknum mæli forherðingu gagnvart vinnuaflinu.

Við erum einfaldlega búin að sjá í gegnum áróðurinn um brauðmolana og við erum búin að sjá í gegnum hina ógeðslegu væntingastjórnun á lágtekjuhópana sem hér hefur verið stunduð og hefur nú umbreyst í það að íslenska hótana-mafían hefur fengið frítt spil til að hræða og þvaðra.

Átökin eru raunveruleg, það er ekki hægt að nota einhverja töfrahugsun eða sigur viljans til að láta sem antagónisminn á milli vinnuaflsins og kapítalista séu ekki algjörlega í miðju þess sem á sér stað í samfélaginu.

Vegna þess að átökin eru raunveruleg ætlum við að snúa vörn í sókn.
Ný verkalýðshreyfing ætlar að stunda verkalýðspólitík. Við ætlum ekki að samþykkja að staða hagsveiflunnar eigi að ráð því hverju vinnandi fólk hefur rétt á.
Við notum útreikninga til að rökstyðja málflutning okkar en við notum líka tilfinningar; af því við trúum því ekki að guð sé Homo Economicus með reiknivél í stað sálar, af því að við trúum því að líf hverrar manneskju sé meiri virði en allt ríkidæmi hins ríkasta.
Við höfnum því að kven-vinnuaflið sé boðið til sölu á útsölumarkaði kapítalista og hins opinbera, við höfnum samræmdri láglaunastefnu.
Við höfnum því að fyrir börn úr stétt verkafólks sé draumurinn um eigið húsnæði brandari.
Afhverju ættum við að samþykkja að búa í landi þar sem misskipting er raunveruleiki og vex, þar sem stéttaskipting er mikil og augljós þar sem meðferðin á öryrkjum, þeim sem ekki geta verið vinnuafl, er bláköld sönnum á því að úrkynjuð hagnýtingarkrafa er allsráðandi í meðferð á fólki.

Við eigum öll að fagna því að eiga kost á því að taka þátt í hagsmunabaráttu verka og láglaunafólks. Notum sögulega vinstri-minnið okkar til að sækja vitneskjuna um að allt það sem við teljum best við samfélagið okkar er afsprengi baráttu alþýðufólks fyrir góðu lífi, að barátta alþýðufólks fyrir betra lífi, fyrir því að fá að vera eitthvað meira en vinnuafl á útsölumarkaði auðvaldsins raungerðist í menntakerfi, velferðarkerfi, samtryggingunni, lögum um vinnutíma, veikindafríi, sumarfríi og svo mætti lengi telja.
Notum sögulega vinsti-minnið okkar til að sjá að það er frábært þegar vinnandi fólk vaknar og viðurkennir eigið mikilvægi fyrir sjálfu sér og ræðst svo í það verkefni að fá allt samfélagið til að viðurkenna það.

Við ætlum að semja um krónur og aura en við ætlum líka að semja um lífsskilyrði í þeirra víðasta skilningi. Og fólk sem lætur eins og það sé ekki hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að berjast á öllum vígstöðvum, að það sé einhvernveginn ekki kurteist eða fallegt að segja að stjórnmálin einfaldlega eigi að svari kalli vinnuaflsins er fólk sem opinberar fáfræði sína um eðli baráttunnar.

Við erum einfaldlega búin að sjá í gegnum áróðurinn um brauðmolana og við erum búin að sjá í gegnum hina ógeðslegu væntingastjórnun á lágtekjuhópana sem hér hefur verið stunduð og hefur nú umbreyst í það að íslenska hótana-mafían hefur fengið frítt spil til að hræða og þvaðra.

Verkalýðspólitíkin okkar er barátta fyrir því að vinnuaflið eigi að vera ráðandi afl í samfélaginu. Við erum mikilvægasti hópurinn, við vinnum vinnuna, við keyrum áfram hagvöxtinn, við erum að búa til raunveruleg verðmæti, við búum ekki í einhverjum hliðarveruleika fjármagns.

Ætlar einhver að halda því fram í dag á Íslandi að hag okkar sé berst borgið með því að hafa alltaf hagsmuni fjármagnseigenda og þeirra sem eiga mestu eignirnar og hafa það best i efnahagslegum skilningi í forgrunni? Er ekki augljóst að það sem við þurfum hér er alvöru hagkerfi, byggt á einhverju öðru en fixasjón á fjármagn og auðsöfnun?

Að lokum:
Viljum við stöðugleika í forréttindum yfirstéttarinnar eða mannsæmandi líf fyrir allt fólk?

Kröfur verka og láglaunafólks allsstaðar að af landinu eru ekki kröfur um kollsteypu, við erum ólík auðvaldinu að því leyti.
Kröfur okkar snúast um jafna skiptingu kökunnar í velsældarríki. Það er hinn einfaldi sannleikur málsins og hann hlýtur að vera öllum þeim sem kenna sig við vinstri einstaklega augljós.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: