- Advertisement -

Viðbrögð andstæðinga jók fylgið

Vísir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segir umræðuna sem myndaðist um Framsóknarflokkinn í kringum sveitarstjórnarkosningarnar hafa verið ósanngjarna. Þá segir hann umræðuna ekki hafa hafist hjá Framsóknarflokkinum heldur andstæðingum framboðsins.

Þetta segir í frétt Vísis af viðtali við Sigmund Davíð Gunnlaugsson í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni fyrr í morgun.
„Ýmsir hafa sagt ýmsa hluti án þess að þeir vektu sérstaka athygli. Það eru viðbrögðin sem urðu þessi stóri atburður. Má nefna sem dæmi að frambjóðandi Samfylkingarinnar í sömu kosningum hafi sagt hluti sem var miklu frekar hægt að flokka sem níð um trúarhóp,“ sagði Sigmundur sem var gestur í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Þar vísaði hann til ummæla Kristínar Soffíu Jónsdóttur árið 2012 um rétttrúnaðarkirkjuna.

„Menn hefðu alveg getað kosið að búa til havarí úr því. Það varð ekki. Það nefnilega skiptir oft á tíðum, virðist vera, hver segir hlutina. Menn nota stundum tækifærið til að spinna einhverja umræðu áfram ef að það eru andstæðingar sem að eiga í hlut.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sprengisandur_761x260_BylgjanSigmundur sagði að ekki hefði verið raunverulegt tilefni til að búa til þá umræðu sem fór af stað.

„Enda hefur komið á daginn í framhaldinu að ýmsar spurningar hafa vaknað um þessa framkvæmd og við þeim hafa ekki fengist skýr svör. Til dæmis hvort það sé yfir höfuð lögmætt fyrir borgina að gefa lóðir með þessum hætti.“

„Umræðan var tekin af andstæðingum þessa framboðs og afskræmd á alveg ótrúlegan hátt. Alveg ótrúlegan hátt,“ segir Sigmundur. Hann segir þetta vera eitthvað sem menn ættu ekki að leyfa sér í pólitík.

„Menn voru reyndar byrjaðir að fikra sig áfram að þessu. Þú manst eftir umræðunni um að þetta væri popúlískur flokkur. Í átökunum um Icesave og svo skuldamálunum. Svo er farið að spinna við það og gengið þetta langt. AÐ það er farið að tengja það við þessi mál algerlega án tilefnis.“

Sigurjón M. Egilsson sagði þá að Gunnar Bragi Sveinsson, Sigrún Magnúsdóttir og Ómar Stefánsson hefðu brugðist við ummælunum.

„Þau áréttuðu það sem er stefna flokksins,“ sagði Sigmundur.

Ómar Stefánsson gerði nú gott betur en það. Hann hætti í flokknum og var búinn að vera bæjarfulltrúi ykkar í langan tíma.

„Já það er alveg rétt. Ómar hefur, allavega frá því ég byrjaði í pólitíkinni verið á annarri línu heldur en flokkurinn og var það kannski fyrir síðustu kosningar líka.“

Við vitum alveg út af hverju hann hætti.

„Nei við vitum það ekki.“
Á ég að lesa það?

„Við vitum af hverju hann segist hafa hætt,“ sagði Sigmundur.

„Það breytir ekki því að þessi umræða var alveg forkastanleg og það hefði verið hægt að búa til samskonar umræðu að hvaða öðru tilefni sem er. Menn eiga ekki að nota svona alvarlegt mál í pólitískum hernaði.“

Áttir þú ekki að koma fram strax? Gast þú ekki slegið á umræðuna?

„Slegið á umræðuna? Átti ég að banna Samfylkingunni og Bjartri framtíð að fara út í þá umræðu sem þau gerðu. Ég gagnrýndi þau fyrir þetta, en ég get ekki bannað frambjóðendum samfylkingarinnar að tala með þeim hætti sem þau gerðu. Þó að mér finnist það algerlega forkastanlegt og beinlínis brjóta gegn því sem eiga að vera grundvallarreglur umræðu í lýðræðisþjóðfélagi.“

„Að saka saklaust fólk um alvarlegt mál, sem er mjög slæmt útaf fyrir sig, en að taka líka svona alvarlegt mál og gera lítið úr því með því að nota það í pólitískum tilgangi, er enn alvarlegra. Það sem er jafnvel verst af öllu er að að með þessu er verið að koma í veg fyrir nauðsynlega umræðu sem að hefði þurft að eiga sér stað um þær samfélagsbreytingar sem eru að verða hér eins og annarsstaðar.“

Sigmundur sagði að hópur breskra þingmanna sem hefði verið hér á landi hefði heyrt af umræðunni.

„Þeir skildu ekki, enginn þeirra botnaði í hvernig Ísland gæti enn verið á þessum stað. Að það yrði farið í umræðuna á þann hátt sem hér var gert. Þeir vöruðu okkur við því og sögðu að þetta myndi fara mjög illa að nálgast þetta á þennan hátt og ekki þora að ræða málin. Heldur kasta rýrð á þá sem að impra á einhverju sem hægt er að tengja við slíkar samfélagsbreytingar.

Sigmundur telur að fólk hafi gert sér grein fyrir því hve mikið væri verið að afbaka umræðuna og því hafi fylgi flokksins í Reykjavík hækkað.

„Ég held að mönnum hafi mislíkað, og ég veit að það er tilfellið, að mörgum mislíkað svakalega að sjá framkomuna við þessa frambjóðendur. Sem voru í rauninni beitt hreinu ofbeldi og almenningur að langmestu leyti gerði sér grein fyrir því hvað var þarna að gerast. Að það væri verið að skrumskæla hlutina og pólitískir andstæðingar þessa framboðs væru með mjög ósvífnum hætti að rægja þau og saka þau um hluti sem ekki var tilefni til.“

Að í raun hafi viðbrögð andstæðinga Framsóknarflokksins hjálpað framboðinu.

„Fólki var misboðið að sjá þessa framkomu sem var í rauninni ofbeldi og snerist ekki um að hjálpa minnihlutahópum heldur snerist bara um eigin hagsmuni þessara frambjóðenda sem gengu fram með þessum hætti.“

Frétt Vísis má lesa hér.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: