- Advertisement -

Vildi alveg grúska á Þjóðarbókhöðunni

Fyrir nokkrum árum, meira að segja nokkuð mörgum, var ég tíður gestur á Þjóðarbókhöðunni. Alveg magnað hús. Allt sem þar er að finna. Makalaust gaman. Og svo fór vel um mig þarna. Það var friður, fínt umhverfi og ágætis kaffihús þar sem ég stundum hitti fínasta fók. Þetta voru fínir dagar. Ég gæti hugsað mér að verja meiri tíma á Þjóðarbókhlöðunni.

Það er með það sem svo margt annað. Brauðstritið verður að hafa sinn gang. Ég hugsa stundum um dagana á Þjóðarbókhlöðunni þegar ég keyri Suðurgötuna. Reyndar er agalegt til þess að hugsa að Melavöllurinn hafi verið látinn víkja fyrir Þjóðarbókhlöðunni. Það hefði verið pláss fyrir hvorutveggja. Það mátti minnka vallarsvæðið, og halda vellinum sjálfum.

Já, Þjóðarbókhlaðan. Dásamlegt hús. Mér var kippt inn í þennan gamla draum minn um daginn. Þá las ég grein eftir Dr. Hannes Hólmsteinn, sem ég las að væri æfiráðinn prófessor, en því trúi ég nú ekki, en þar sagði hann: „Ég hef hins vegar reynt eftir megni að færast undan stjórnunarstörfum, enda hef ég meiri áhuga á grúski á Þjóðarbókhlöðunni en löngum fundum.“

Mikil ósköp er ég sammála honum. Hef reyndar enga reynslu af fundunum sem hann sótti, en er þess fullviss að Þjóðarbókhlaðan er betri, skemmtilegri og meira gefandi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Mikið vildi ég, ef allt er rétt sem ég les og heyri, að ég hefði svona vinnuveitenda. Að ég gæti sagt, við hann, að ég vilji ekki sinna stjórnunarstörfum, að ég vilji ekki sitja fundi, ég vilji frekar vera á Þjóðarbókhlöðunni. Og svo kæmist ég bara upp með það. Þegar launin eru lögð inn, fyrir grúskið á Þjóðarbókhlöðunni, er hægt að fara á heimabankann, skvera reikningana af, halda áfram að grúska, fara niður á kaffistofuna, aftur upp að grúska, bíða næstu launa og svo áfram og áfram. Þetta er hagsæld, en reyndar bara hagsæld eins, en ekki má gera lítið úr því. En hver er svona góður vinnuveitandi.

Best að kanna það. Prófessor Hannes skrifaði þetta:

„Auðvitað er misjafn sauður í mörgu fé, en ég verð þó að segja, að Háskóli Íslands er góður vinnustaður. Mér hefur líkað vel að kenna þar, frá því að ég var skipaður lektor í stjórnmálafræði sumarið 1988, og hafa prýðilega aðstöðu til rannsókna, sem ég hef tiltölulega frjálsar hendur um. Ég kann vel við nemendur mína, sem eru hressir, fjörugir og fróðleiksfúsir, og samkennara, sem komu mér skemmtilega á óvart með höfðinglegri gjöf á sextugsafmæli mínu fyrir hálfu öðru ári, og tóku jafnvel fornir fjandmenn eins og Svanur Kristjánsson þátt í henni. Ég hef hins vegar reynt eftir megni að færast undan stjórnunarstörfum, enda hef ég meiri áhuga á grúski á Þjóðarbókhlöðunni en löngum fundum. Hafa samstarfsmenn mínir verið furðuþolinmóðir og sveigjanlegir gagnvart mér og mínum sérþörfum. Þeir menn, sem nú gegna trúnaðarstörfum fyrir Háskólann, eru undantekningarlaust vel gefnir og góðviljaðir menn. Þegar ég sé það óöryggi og ósjálfstæði, sem margir aðrir þurfa að búa við á sínum vinnustöðum, rifjast upp fyrir mér, hversu góður vinnustaður Háskólinn er. Ég þarf að minnsta kosti ekki að kvarta.“

Hannes Hólmsteinn þarf ekki að kvarta. Og ég svo sem ekki heldur. Verð reyndar að sætta mig við að hafa ekki tíma til að grúska á Þjóðarbókhlöðunni daginn út og daginn inn. Verð að afla tekna, borga skatta og allt það. Meðal annars til þess að aðrir geti áhyggjulaust grúskað á Þjóðarbókhlöðunni. Sjálfum sér til hamingju. Veit ekki með hamingu annarra.

 

Sigurjón Magnús Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: