- Advertisement -

XB2: Dýr skammsýni Sigurðar Inga

Framsóknarflokkurinn er að kikna undan óbærilegum skuldum. Óvíst hvort unnt verði að halda húsinu við Hverfisgötu.

Innan Framsóknarflokksins er ósætti með margt. Eitt af því sem nefnt hefur verið er að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins, hafi ekki gætt að sér þegar hann samþykkti ósk Bjarna Benediktssonar um kosningar í október 2016. Samþykki Sigurðar Inga hefur gengið mjög nærri Framsóknarflokknum.

Þegar hér var komið sögu var Framsóknarflokkurinn með nítján þingmenn og staða flokksins, hvað það varðar, var óvenju sterk. Samt logaði flokkurinn stafnanna á milli vegna innbyrðisátaka.

70 milljóna munur

Sigurði Inga yfirsást hverjar afleiðingar kynnu að verða. Framsóknarflokkurinn hafði farið framúr sér í fjármálunum. Hús flokksins við Hverfisgötu í Reykjavík var veðsett upp í loftnet og enn átti eftir að bætast við. Afleiðingarnar af kosningunum 2016 urðu þær að þingmönnum fækkaði úr nítján í níu. Þá um leið lækkaði ríkisframlagið verulega, en það er ákveðið út frá þingmannafjölda um áramót.

Hefði Sigurður Ingi sagt nei við Bjarna og fengið því framgengt að kosið hefði verið eftir áramótin, þ.e. þremur mánuðum síðar hefði ríkisframlag ársins 2017 verið um sjötíu milljónum hærra en það varð, vegna þess hversu illa gekk í kosningunum. Tapið var fyrirséð vegna ástandsins í flokknum. Og um leið er sagt að mun betur hefði gengið að reka skuldirnar með þær tekjur sem þar með hurfu.

Enn var bætt í

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Las ekki vel í stöðuna.

Sigurður Ingi var nýr formaður í kosningunum og ákvað og fékk framgengt að til að fá sem besta kosningu voru fengin lán og í raun var peningum, sem flokkur átti ekki, varið til að tryggja sem besta kosningu undir forystu hins nýja formanns, Sigurðar Inga Jóhannssonar.

Það gekk ekki sem best. Heimildir innan Framsóknar segja mjög djúpt á upplýsingum um fjárhagsstöðuna og tvísýnt sé hversu lengi flokkurinn haldi húsinu við Hverfisgötu. Að skuldirnar séu orðnar mun meiri en flokkurinn ráði við.

Þrátt fyrir blankheitin var samt bætt í vandann þegar meiru var eytt en skynsemi sagði til um, til að tryggja þingsæti Lilju Alfreðsdóttur varaformanns í síðustu þingkosningum. Meira um það í næsta þætti.

Ósættið innan Framsóknar er mikið og hefur áhrif á margt. Ekki síst á stöðu formannsins sem er knúinn áfram af sínu nánasta baklandi. Utan þess eru hins vegar fólk sem vill að formaðurinn víki. Þar sem Lilja Dögg hefur ekki viljað fara gegn honum þarf að finna annan til þess, að mati andstæðinga formannsins innan Framsóknar.

Fyrr í dag var skrifað hér um hvernig samkomulagið er milli Sigurðar Inga og Lilju Daggar. Næst verður skrifað um síðustu kosningar og svo komandi byggðakosningar og aðkomu þeirra sem kalla sig „ræningja“. Af nógu er að taka.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: