- Advertisement -

XB3: Allt fyrir Lilju

Lilja Alfreðsdóttir er í senn vonarstjarna Framsóknarflokksins og sú manneskja sem beðið er eftir að taki af skarið, eða ekki.

Staðan innan Framsóknarflokksins var ekki góð þegar kom að síðustu þingkosningum, haustið 2017. Flokkurinn átti ekki peninga, var og stórskuldugur, fylgið mældist undir væntingum og fá góð ráð voru til.

Vonarstjarna Framsóknarflokksins, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður flokksins, virtist ekki ætla að ná kjöri. Það þótti Framsónarmönnum ömurleg tilhugsun. Eining virtist um að gera allt sem hægt var, og meira ef þurfti, til að tryggja Lilju kosningu.

Miklu kostað til

Þrátt fyrir erfiða stöðu var ákveðið að kosta miklu til. Jafnvel peningum sem ekki voru til. Fyrir kosningar hitti ég Lilju að máli. Þá var fjarri að hún mældist inni. Hún var sannfærð um að sér tækist að ná kjöri. Sama sögðu aðrir Framsóknarmenn á þeim tíma.

Aðrir sögðust sannfærðir um að hún næði ekki kjöri. Baráttan væri vonlaust. Lilja var kosin til þingstarfa og er nú menntamálaráðherra. Enn er horft til hennar sem framtíðarleiðtoga flokksins. Miklu var til fórnað í kosningunum og uppskeran var fín. Lilja náði kjöri og Framsóknarflokkurinn er í ríkisstjórn. Eða hvað? Er staðan svo fín?

Meðal fólks í Framsóknarflokknum gætir óþolinmæði. Flokkurinn er enn í sárum eftir klofninginn og þó friður hafi ríkt á flokksþinginu í janúar var það ekki endilega vegna sátta og samlyndis. Ekki síður vegna þess að þreytu gætir og fólk nennir hreinlega ekki að vera ávallt í ófriði. Sárindi og svekkelsi vegna þess hvernig fór meiðir marga. Vitað er að innan Framsóknarflokksins, jafnvel í flokksstarfinu sjálfu, er fólk sem horfir ekki síður til Miðflokksins, en Framsóknarflokksins. Það kraumar undir niðri.

Staðan veikist

Lilja Dögg er sögð vera sú sem líklegust er til að breyta því sem breyta þarf. Þó er staða hennar ekki eins sterk nú og áður. Meira að segja, segja sumir félagar hennar að enginn stjórnmálamaður hafi fengið eins mikið lof fyrir jafn lítið, og Lilja Dögg. Vilji hún verða formaður efast fáir um að hún verði formaður. En stundaglasið er í gangi.

Framsóknarmenn, sem talað var við, eru þess fullvissir að Sigurður Ingi Jóhannsson er ekki framtíðarformaður Framsóknarflokksins. Til þess hefur hann barist um of innan flokksins og á sinn þátt í klofningnum sem varð.

Með hverjum degi sem líður breikkar gjáin milli Framsóknarflokks og Miðflokks. Helst var litið til Lilju Daggar sem sáttasemjara. Sú von fjarlægist. Miðflokksfólk telur sig vera með sterka stöðu og spilar samkvæmt því.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir á bæði völina og kvölina.  Það er hennar að láta til sín taka af meira afli en hingað til, eða ekki. Eftir henni er beðið.

 

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: