- Advertisement -

Yfirgefur Framsókn og segir flokkinn ekki hafa gert upp moskumálið

Samfélag „Formaður og flest annað lykilfólk í forystu Framsóknarflokksins lét hjá líða að gera opinberlega athugasemdir við framgöngu framboðsins í Reykjavík meðan á kosningabaráttunni stóð. Þá fela orð formanns flokksins undanfarið að mínum dómi í sér fullkomna afneitun á því að nokkuð hafi verið athugavert við það hvernig kosningabarátta framboðsins var háð. Verða orð hans vart skilin öðruvísi en hann hafi ekkert við umræddan málflutning framboðsins að athuga. Flokkurinn hefur að mínu áliti engan veginn gert málið upp með viðunandi hætti.“ Þetta skrifar Þorsteinn Magnússon sem samtímis segir sig úr Framsóknarflokknum og segir þá af sér sem varaþingmaður.

„Þegar ég gekk í flokkinn haustið 2012 horfði ég m.a. til samþykktrar grundvallarstefnuskrár flokksins, þar sem hann er skilgreindur sem frjálslyndur félagshyggjuflokkur, rík áhersla er lögð á mannréttindi og hafnað hvers kyns mismunun, m.a. á grundvelli trúar. Ég lít á mig sem frjálslyndan miðjumann og mat það svo að mín lífsviðhorf féllu vel að grundvallarstefnu flokksins. Þá taldi ég að flestum flokksmönnum væri alvara með því að fylgja grundvallarstefnunni og að forysta flokksins tæki af skarið ef til þess kæmi að einstök framboð vikju frá henni í veigamiklum atriðum.

Í aðdraganda borgarstjórnarkosninga nú í vor birtist ítrekað af hálfu framboðs Framsóknar og flugvallarvina boðskapur sem helst varð skilinn svo að framboðið teldi að með tilkomu mosku í Reykjavík ykjust líkur á ýmsum samfélagslegum vandmálum, þ.á m. lögbrotum. Birtist þessi boðskapur í samhengi við og í kjölfarið á yfirlýsingum frambjóðenda um að afturkalla bæri úthlutun á lóð undir mosku til Félags múslima á Íslandi. Ekkert hefur þó komið fram sem bendir til þess að samfélagsleg vandamál hafi tengst félaginu eða meðlimum þess umfram aðra þjóðfélagshópa hingað til. Með þessu var annað hvort meðvitað eða ómeðvitað alið á andúð á tilteknum trúarhópi í kosningabaráttu en slíkt sæmir engan veginn siðuðu stjórnmálaafli. Umræðan sem framboðið efndi til var að mínu mati tilefnislaus, meiðandi í garð múslima og til þess fallin að ýta undir fordóma og mismunun. Þá fær hún að mínum dómi með engu móti samræmst grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins, enda birtust þar viðhorf sem tengjast mun frekar þjóðernissinnaðri íhaldsstefnu heldur en frjálslyndri miðjustefnu.“

Með atburðarás undanfarinna vikna hafa forsendur fyrir veru minni í Framsóknarflokknum brostið og samvisku minnar og sannfæringar vegna get ég ekki haldið áfram að starfa fyrir flokkinn.  Er því óhjákvæmilegt að leiðir skilji. Í kjölfarið á þessari ákvörðun minni mun ég segja mig frá öllum trúnaðarstörfum sem ég gegni fyrir flokkinn og segja af mér varaþingmennsku,“ segir Þorsteinn Magnússon fyrrverandi félagi í Framsóknarflokknum.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: