
Þröstur Ólafsson skrifaði:
Eins og vara selst ekki lengur vegna góðs innihalds, heldur af gæðatökum hugmyndasmiða og auglýsingajörfa, þá er það varðveisla hégómans eða stöðu í samfélaginu eða metnaður sem deilt er um.
Þröstur Ólafsson skrifaði:
Hér í eina tíð var gjarnan notast við klassískar söguskýringar við að greina og þar með skilja betur hræringar tímans. Þróun kapítalismans þar sem ásókn í auðsöfnun og stjórn á fjármagni eru megin einkenni.
Einnig er leitað á mið afbökunar einstaklingshyggjunnar, þar sem einstaklingurinn er upphafinn og tilbeiddur oftast í beinu hlutfalli við ríkidæmi samfara ítökum í ríkisstjórnum. Sú harka og sá ósveigjanleiki sem setur mark sitt á samskipti hópa og einstaklinga er einkennandi fyrir samskipti á þessum nýju tímum.
Þá eru ástæður og tilefni deilna oft önnur en áður var, þó ekkert sé nýtt undir sólinni. Eins og vara selst ekki lengur vegna góðs innihalds, heldur af gæðatökum hugmyndasmiða og auglýsingajörfa, þá er það varðveisla hégómans eða stöðu í samfélaginu eða metnaður sem deilt er um.
Við þurfum ekkert að fara langt yfir skammt. Það fór ekki fram hjá neinum sem heyra vildi að afar harðar deilur sem enduðu með niðurstöðu sem kann að hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir þjóðina, voru átök um metnað og stöðu í launastiga samfélagsins en í mun minna mæli um afkomu og velferð.
Lofað hafði verið upp í ermina eins og stundum er gert til að koma lokinu á pottinn. Í þetta skiptið er hætt við að lokið verði okkur öllum ofviða.