- Advertisement -

Á Ásgeir að rannsaka Ármann?

Svo eru ráðamenn voða hissa að Ísland sé skráð peningaþvottastöð.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Hver man ekki eftir Ármanni Þorvaldssyni fyrrum forstjóra Kviku banka, nú aðstoðarforstjóri. Hann var einn af forkólfum Kaupþings sem kostaði þjóðarbúið skrilljónir. Víðfrægt var vörumerkið „Kaupthing Edge“. Samkvæmt upplýsingum frá grútmáttlausu íslensku fjármálaeftirliti þá er gjaldþrot Kaupþings fimmta stærsta gjaldþrot heimssögunnar. Það er minnisvarði úr graníti um árangur Ármanns og annarra samverkamanna hjá Kaupþingi!

Nú hafa Kevin Stanford og Karen Millen sem voru stórir viðskiptavinir Kaupþings skrifað tvö opin bréf til Ármanns Þorvaldssonar sem finna má á vef Kjarnans. Innihald bréfanna er magnað og er skyldulesning. Saka þau Ármann um blekkingar, óheiðarleika, svindl og svínarí í viðskiptum við þau. Rökstyðja þau mál sitt með fjölmörgum skjölum og símtalsupptökum! Kalla þau eftir að fram fari opinber rannsókn á háttsemi Ármanns Þorvaldssonar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hér vandast málið. Hver á að rannsaka Ármann? Samkvæmt nýju skipuriti Seðlabankans verður æðsti yfirmaður fjármálaeftirlits á Íslandi hinn alræmdi seðlabankastjóri Ásgeir Jónsson. Þið munið að Ásgeir og Ármann voru báðir yfirstjórnendur hjá Kaupþingi. Þarna eru óeðlileg hagsmunatengsl komin upp. Tengslin sýna enn og aftur dómgreindarleysi Katrínar Jak forsætisráðherra þegar hún skipaði Ásgeir sem seðlabankastjóra. Ákvörðunin er einnig kennslubókardæmi um dugleysi!

Katrínu forsætisráðherra finnst þetta vera okkar langbesti maður til að gegna æðstu stöðu íslenska fjármálakerfisins! Hér á landi hefur ekkert breyst frá því fyrir hrun. Sama andvaraleysið og sömu leikendurnir. Katrín Jak dettur bara inn í kerfið eins og flís við brot. Þetta er mörgum kjósendum mikil vonbrigði!

Svo eru ráðamenn voða hissa að Ísland sé skráð peningaþvottastöð. Segja allt á misskilningi byggt og ósanngjarnt.    


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: