- Advertisement -

Á brauðfótum?

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

„Eftir langt tímabil einstefnu í hlutabréfaverði og hækkun vaxta á næstu misserum þá mun hlutabréfamarkaðurinn leiðrétta sig.“

Bill Hwang.

Heimurinn þekkir fjármálaþrjótinn Bernie heitin Maddoff. Manninn sem byggði upp fjárfestingarsjóð á Wall Street sem reyndist lítið annað en svindl og svínarí. Ponsi svikamylla. Mál hans og sjálft fjármálahrunið árið 2008 leiddi til víðtækra lagabreytinga um heim allan á sviði fjármálastarfsemi. Ætlunin var að stórbæta fjármálaeftirlit. Nýtt ógæfunafn hefur nú skotið upp kollinum sem fáir þekktu þar til í vor, Bill Hwang. Talið er að aldrei áður hafi einkasjóður tapað eins miklum fjármunum á aðeins tveimur dögum og Bill gerði í vor. Tapið nemur fjárhæð sem er 25 prósent hærri en landsframleiðsla Íslands á síðasta ári.

Bandarísk yfirvöld rannsaka nú hvernig Bill Hwang gat athafnað sig í heilan áratug án þess að viðvörunarbjöllur klingdu hjá fjármálaeftirlitum Wall Street. Einkum og sér í lagi þar sem Bill gekkst við innherjabrotum hjá Tiger Asia árið 2012 sem gerði út af við það fyrirtæki. Bill var aftur á móti ekki peningasnauður og kom sér fyrir óséður á Wall Street í kjölfarið.

Bill karlinn er slóttugur og lét lítið fyrir sér fara.

Bill karlinn er slóttugur og lét lítið fyrir sér fara. Lifði einföldu lífi, alla vega á yfirborðinu. Stofnaði fyrirtækið Archegos Capital Management með 25 milljarða króna eigið fé og eitt stykki trúarsöfnuð sér að baki. Byggði síðan upp ímynd að hann væri á guðs vegum í sínum fjárfestingum. Í Biblíunni þá þýðir Archegos þann sem leiðir aðra áfram eða Jesú.

Fjárfestingarstefna Bills Hwang var einföld. Fjárfest var eingöngu í þekktum tæknifyrirtækjum og legið á bréfunum í heilan áratug. Þar hjálpaði að markaðurinn hefur bara verið á uppleið æ síðan. Aukreitis þá hafði hinn útvaldi aðgang að miklu lánsfé hjá heimsþekktum bönkum. Hann náði að byggja upp hlutabréfaeign sem metin var á meira en landsframleiðslu hér heima. Leikkerfið var að bæta sífellt í stöðurnar þegar hlutabréfaverð hækkaði. Hann safnaði þannig sífellt hærri skuldum og eiginfjárhlutinn minnkaði hlutfallslega meira en virðisaukning hlutabréfanna.

Í vor þá fór ViacombCBS í nýtt hlutafjárútboð, fyrirtæki sem útsendari guðs átti hlutfallslega stóran hlut í. Hlutabréfútboðið fór illa í markaðinn og lækkaði virði þess um 32 prósent á tveimur dögum. Bill stóð frammi fyrir veðkalli stóru bankanna. Annað hvort kæmi hann inn með meira eigið fé eða hann minnkaði stöður sína stórlega til að hækka eiginfjárhlutfallið. Það hefði leitt af sér innleysingu á tapi. Guðs sonurinn neitaði að bregðast við. Ekki gat hann brugðist almættinu og sagt því frá að hann væri ekki hinn útvaldi. Hann kaus frekar að brjóta eitt boðorðanna og halda uppi hinni fölsku ímynd um að hann væri á guðsvegum í sínum fjárfestingum. Bankarnir tóku yfir stöðurnar og sendiboðinn tapaði öllu.

Vonandi veldur það ekki keðjuverkun og hruni hlutabréfaverðs.

Hvernig má það vera að hinn útvaldi sonur guðs gat byggt upp allar þessar skuldir án þess að það hringdi bjöllum hjá fjármálaeftirlitum Bandaríkjanna. Svarið er einfalt. Bill stundaði viðskipti sín með skiptisamningum (swaps) í gegnum viðskiptaborð stóru bankanna. Þannig kom nafn Bills, Archegos eða guðs aldrei fram í umsýslubókum bankanna. Út á við þá voru bankarnir skráðir fyrir viðskiptunum. Enginn hafði heildaryfirsýn yfir viðskipti Archegos nema Bill og almáttugur guð.

Bandarísk yfirvöld eru nú að rannsaka málið, en ekki er talið að um kerfilslæga áhættu sé að ræða. Á móti segi ég að sjaldan er ein báran stök og spyr hver staðan er á Íslandi í þessum málum. Eftir langt tímabil einstefnu í hlutabréfaverði og hækkun vaxta á næstu misserum þá mun hlutabréfamarkaðurinn leiðrétta sig. Þá munu mögulega mýmörg veðköll verða framkölluð og margir vafningar raknir upp. Vonandi veldur það ekki keðjuverkun og hruni hlutabréfaverðs. Við sjáum til hvað setur og hvort eitthvað hafi breyst á Íslandi í þessum efnum. Ég hef efasemdir.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: