- Advertisement -

Á valdi nálaraugans

Samtökin hafa nefnilega meiri áhyggjur af eignarhaldi fyrirtækjanna en velferð þjóðarinnar.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins lýsti nýverið úreltri stefnu samtakanna varðandi hagstjórn landsins. Segir að stjórna eigi hagkerfinu út frá framboðshliðinni þegar sama og engin framboðs vandamál eru fyrir hendi. Framleiðslutækin standa klár að framleiða og veita þjónustu. Eru meira að segja vel flest á ágætum snúningi þrátt fyrir háværan barlóm úr Borgartúni 35. Samtökin hafa nefnilega meiri áhyggjur af eignarhaldi fyrirtækjanna en velferð þjóðarinnar. Inntak baráttu Samtakanna grefur undan meginstoð hagkerfisins, sem er eftirspurn neytenda. Hún færi hratt minnkandi og bæri ömurðina í sér. Lækkun skatta eða opinber niðurskurður er ekki leið til árangurs við núverandi aðstæður.

Til að fjármagna hallarekstur ríkisins þá getur Seðlabankinn prentað nýtt fjármagn, aukið erlendar skuldir, sem fást vaxtalaus, til að fjármagna arðbærar framkvæmdir í innviðum. Minnka má gjaldeyrisforðann með löglegum hætti þó það auki ytri áhættu þjóðarbúsins enda sjóðurinn einn sá allra stærsti í heiminum á höfðatöluna mælt. Samhliða þessu þá þarf að hækka atvinnuleysisbætur tímabundið til að örva eftirspurnina enn frekar. Aðgerðirnar eru sambærilegar þeim sem bandarísk stjórnvöld hafa gripið til, en þar hefur atvinnuleysi minnkað um þriðjung að undanförnu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sveiflujöfnun hins opinbera er fyrirtækjum mikilvæg, en markaðurinn þarf líka að hreinsa sig og endurskipuleggja. Fá þarf inn nýtt eigið sem nóg er af í landinu samanber árangursríkt hlutafjárútboð Icelandair. Einstaklingar virðast tilbúnir að taka áhættu fyrir hagnaðarvonina. Eðlilega fjármögnuð fyrirtæki með vænlegan rekstrargrunn munu halda velli og önnur sameinast. Jafnhliða þessu koma ný fyrirtæki fram. Eftirspurnarstjórnun sem hér er lýst er í framkvæmd um víða veröld og kallar ekki á skattahækkun í dag né síðar hvað Ísland varðar. Eftirspurnarefling frekar en dekur á framboðshliðinni er ódýrari leið upp á við fyrir hagkerfið. Jafnframt, stendur hún vörð um mannlega reisn og efnahagslega almannahagsmuni.

Stefna Samtakanna og forvera þess hefur ekki breyst síðustu fjóra áratugina, textinn er óbreyttur. Á sama tíma hefur heimshagkerfið tekið stakkaskiptum og miklar framfarir átt sér stað ef mengun er undanskilin. Íslenska kerfið hefur notið góðs af. Ég man vel hvenær yfirstandandi framfaraskeið hófst í Evrópu eða 1. janúar 1994. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) tók gildi og hefur Ísland verið aðili allar götur síðan. Segja má að íslenskar framfarir séu í raun innfluttar þar sem Ísland tekur upp lög sem eiga uppruna sinn á samráðsvettvangi EES, neytendum og þar með fyrirtækjum til heilla. Eitt og einangrað þá hefði Ísland aldrei náð viðlíka árangri á jafn skömmum tíma vegna þröngsýnna afturhaldsafla.  

Vaxandi eftirspurn neytenda innan EES og hindrunarlaus aðgangur íslenskra fyrirtækja að þeirri eftirspurn er grundvöllur aukinnar velferðar og verðmætasköpunar á Íslandi. Aðild Íslands að EES hefur einnig fært landinu ríflegar fjárhæðir til rannsókna og nýsköpunar. Meira en höfðatalan segir til um. Það er því undarlegt að Samtök atvinnulífsins ljái aldrei máls á stóra hagsmunamálinu um að taka upp evru í stað krónu, sem ekki getur synt án tvöfalds björgunarkúts. Já, og með þúsund milljarða króna fjárbindingu í gjaldeyrisforða. Evran myndi færa Íslandi meiri stöðugleika, meiri tiltrú og aukin tækifæri á öllum sviðum samfélagsins. Um leið myndi losna um gjaldeyrisvaraforðann. Verðbólga og vextir yrðu lægri sem leiðir til minna atvinnuleysis. Hagur neytenda og þar með heimila yrði meiri, sem aftur eflir eftirspurnina. Afleiðingin yrði blómlegra atvinnulíf. Minnt skal á að upptaka evrunnar þarf ekki endilega að þýða aðild að Evrópusambandinu, en það er annað mál.

Í stað þess að tala fyrir evrunni þá eru Samtökin að tala fyrir dýpri og langsamri niðursveiflu. Í Bandaríkjunum þá myndi ekki nokkur maður hlusta á málflutning Samtakanna. Þeim yrði vísað á brottfararhliðið til gömlu Sovétríkjanna. Ríki sem fékk andlát vegna taumlausrar framboðsstýringar. Stefna Samtaka atvinnulífsins er glötuð.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: