- Advertisement -

Að búa til ný viðmið valdanna vegna

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Krafði þingheim um að fyrirgefa rasísk ummæli Framsóknarflokksins því hún væri búin að fyrirgefa. Öðruvísi halda Vinstri græn ekki í ráðherrastólana.

Forsætisráðherra Vinstri grænna sér um að gefa út aflátsbréf.

Forsætisráðherra var þvermóðskulegur og með krosslagðar hendur í ræðustól Alþingis í gær. Krafði þingheim um að fyrirgefa rasísk ummæli Framsóknarflokksins því hún væri búin að fyrirgefa. Öðruvísi halda Vinstri græn ekki í ráðherrastólana. Samkvæmt Katrínu Jak þá var afsökunarbeiðni Sigurðar Inga svo einlæg og tilraun til að ljúga sig úr aðstæðunum taldi ekkert. Og að ljúga síðan til um sjálfa lygina er einnig voða einlægt að mati Vinstri grænna. Þar með er komið fram nýtt opinbert viðmið um hvar mörk hins óásættanlega liggja. Vinstri græn færðu þau til hins verra í gær.

Í nafni fyrirgefningar forsætisráðherra þá er í raun búið að opna á hvað sem er því hið óásættanlega er teygjanlegt samkvæmt Katrínu Jak. Mörkin eru hreyfanleg og fara eftir hagsmunum Vinstri grænna hverju sinni. Því verri sem ummæli og gjörðir eru því meira toga Vinstri græn bara teygjuna til. Þau hafa fyrirgefið fjármálaráðherra ansi margt. Eins og til dæmis þátt hans í fjármálahruninu og að selja ríkiseigur á undirverði. Já, líka það að bera ekki grímu í Ásmundarsal þegar öll þjóðin var skylduð til að bera grímu. Líka það að hylma yfir aðkomu föður fjármálaráðherra þegar veita átti kynferðisglæpamanni uppreist æru. Vinstri græn hafa einnig fyrirgefið ítrekaðar rangfærslur og lygar fjármálaráðherra á opinberum vettvangi með því að toga bara teygjuna enn meira til.

Á að fyrirgefa Pútin hildarleikinn í Úkraínu vegna þess að ósk um fyrirgefningu verður einlæg?

Á sama hátt og að foreldrar mismuna ekki börnunum sínum þá er komið að því hjá Vinstri grænum að fyrirgefa formanni Framsóknar. Og skiptir þá engu máli þó um grafalvarlegan atburð sé að ræða. Spyrja verður því hvert færa Vinstri græn mörk hins óásættanlega næst. Á að fyrirgefa Pútin hildarleikinn í Úkraínu vegna þess að ósk um fyrirgefningu verður einlæg? Eða er ásættanlegt ef félagsmálaráðherra verði uppnefndur kynvillingur af öðrum ráðherrum eða landsmönnum?

Auðvitað ekki, en í nafni teygjanlegrar fyrirgefningar þá eru Vinstri græn til í hvað sem er. Ýmsir geta núna óskað eftir fyrirgefningu á óásættanlegum orðum og gjörðum. Forsætisráðherra Vinstri grænna sér um að gefa út aflátsbréf. Teygjan verður toguð þar til siðmenning og almenn kurteisi hverfur.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: