- Advertisement -

Að delera í fréttum

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

„Hann er einnig lafhræddur að gaurar eins og hann muni brátt þurfa að greiða sanngirnisskatta til samfélagsins í stað þess að ríða um á baki láglaunafólks.“

Samherjaflokkurinn sendi heimsendaspámanninn í Silfur gærdagsins og viðtal við hann var í kvöldfréttum. Halldór Benjamín Þorbergsson sagði að skuldahlutfall ríkissjóð væri að nálgast 50 prósent af landsframleiðslu og að það gangi ekki. Eins og í kringum kjarasamninga þá setur hann af stað hræðsluáróður, heimsendaspár vegna þess að hann er að hugsa um sérhagsmuni hinna fáu.

Á Bretlandseyjum eru opinberar skuldir í kringum 100 prósent af landsframleiðslu, í Bandaríkjunum stendur það í 107 prósentum og Kanada er með 118 prósent hlutfall. Þjóðverjar eru með 70 prósent hlutfall og Hollendingar 55 prósent. Á Norðurlöndunum þá er hlutfallið á bilinu 40 til 70 prósent. Við núverandi aðstæður og með heimsvexti í sögulegu lágmarki þá hefa engin lönd áhyggjur af sínum skuldahlutföllum. Þetta er ekki einu sinni kosningamál í löndunum í kringum okkur þó Samherjaflokkurinn reyni að setja það á dagskrá.

Heimsendaspámaðurinn óttast núna að fyrirtæki og einstaklingar sem fengu óverjandi fjárstuðning úr ríkissjóði á kóvít-19 tímum þurfi núna að greiða landsmönnum til baka stuðninginn. Hér á ég við aðila sem þáðu stuðning á sama tíma og forstjórarnir borguðu sér milljónir á milljónir ofan í mánaðarlaun. Gerist heimsendaspámaðurinn nú svo grófur, þegar ábyrgir stjórnmálaflokkar segjast ætla að efla innviðina, að þykjast hafa áhyggjur af skuldugum heimilum ef vextir hækka áfram. Það sem hann raunverulega óttast er að nú komi miðjustjórn sem stjórna mun út frá almannahagsmunum. Reynir hann þá að segja að fjárfestingar ríkisins muni hækka vexti sem nú þegar eru á uppleið vegna óstjórnar núverandi ríkisstjórnar. Hann er einnig lafhræddur að gaurar eins og hann muni brátt þurfa að greiða sanngirnisskatta til samfélagsins í stað þess að ríða um á baki láglaunafólks.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: