- Advertisement -

Að kaupa sér sakleysi hjá vin

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Ef seðlabankastjóri hefur ekki þolinmæði til að bíða eftir niðurstöðu siðanefndar af hverju hafði hann ekki samband við Bergsvein og bar upp þá tillögu að skipa gerðardóm.

Það virðist ekkert lát vera á vanstilltri hegðun seðlabankastjóra Seðlabanka Íslands. Nú hefur hann keypt sér álitsgerð hjá Helga Þorlákssyni, fyrrverandi prófessors í sagnfræði við Háskóla Íslands, um ásakanir Bergsveins Birgissonar í garð seðlabankastjóra. Þær lúta að meintum rit- eða hugverkastuldi. Við þetta háttalag er sitthvað að athuga.

Hið augljósa er að Helgi getur ekki talist hlutlaus né æskilegur álitsgjafi sökum þess að seðlabankastjóri og Helgi störfuðu hjá sama háskóla um árabil. Í ljósi áhuga seðlabankastjóra á frumsögu Íslands þá tel ég næsta víst að þeir séu málkunnugir, jafnvel félagar, og hafi rætt sögu landsins við ýmis tækifæri. Í það minnsta þá koma þeir innan úr sömu kreðsunni þar sem tiltekin fagleg viðhorf til rannsóknarefna koma úr sama forminu.

Það er einkennilegt af hverju seðlabankastjóri gaf málinu ekki þann tíma sem þarf til að útkljá deilurnar fyrir siðanefnd Háskóla Íslands, þangað sem Bergsveinn hefur kært málið. Þar mun fjölskipuð, og vonandi hlutlaus, nefnd komast að málefnalegri niðurstöðu. Ég hef efasemdir eftir aðkomu Helga að málinu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Eftir stendur vont bragð um að háttsettur embættismaður telji sig geta handvalið dómara. Það er eitthvað mikilmennsku brjálaði fólgið í því.

Að seðlabankastjóri haldi að það sé hans að ákveða hver dæmi í hans meintri sök er hreint út sagt hlægilegt, en samt eitthvað svo íslenskt. Svo má ekki gleyma því að annar aðili, bróðir forsætisráðherra, er prófessor við sagnfræði- og heimspekideild HÍ. Sá hefur haft sig í frammi allt frá því að ásakanir Bergsveins komu fyrst fram og tekið málstað seðlabankastjóra. Hann og Helgi eru gamlir vinnufélagar.  Þannig að valið á Helga er einnig mengað frá þessu sjónarhorni.

Ef seðlabankastjóri hefur ekki þolinmæði til að bíða eftir niðurstöðu siðanefndar af hverju hafði hann ekki samband við Bergsvein og bar upp þá tillögu að skipa gerðardóm. Þá hefðu báðir aðilar getað tilnefnt sinn aðilann hvor og oddamaður kæmi eftir tilnefningu frá hlutlausum aðila. Það segir talsvert að seðlabankastjóri telji sig geta valið dómara einhliða. Þetta mál snýst ekki um að snúa almenningsálitinu á sveif með öðrum eða hinum heldur um að leiða málið til niðurstöðu þar sem fagleg nálgun ræður för. Og í þessu samhengi verður að spyrja hvað borgaði Ásgeir háa fjárhæð til Helga fyrir álitsgerðina?

Ég tók mér tíma og las álitsgerð Helga. Hún er fróðleg, en það fer ekki á milli mála að Helga er eiginlega illa við Bergsvein. Undirtónninn er þannig, mér finnst það skína í gegn. Álitsgerðina skortir hlutlaust yfirbragð. Síðan finnst mér Helgi fara ansi frjálslega með túlkun sína á því hvað telst vera fræðirit og hvað ekki. Það ræður miklu um niðurstöðuna að Ásgeir hafi engu stolið frá Bergsveini. Helgi hefur losaralegt viðhorf til þess hvar landamærin liggja milli fræðirits og þanka leikmannsins. Sjálfur þá hef ég aldrei kynnst landamæraleysi Helga og á ég þó að baki próf frá þremur rótgrónum háskólum í þremur löndum.

Álitsgerð Helga er andvana fædd hvað varðar að hreinsa seðlabankastjóra af ásökunum Bergsveins, en hún veitir okkur óvænt sjónarhorn inn í sagnfræðideild HÍ. Eftir stendur vont bragð um að háttsettur embættismaður telji sig geta handvalið dómara. Það er eitthvað mikilmennsku brjálaði fólgið í því. Og að fyrrverandi prófessor skuli láta draga sig inn í málið á þeim forsendum sem Ásgeir leggur upp með er mjög einkennilegt. Hann ræddi augljóslega aldrei við Bergsvein á sama tíma og hann hefur átt samtöl við seðlabankastjóra. Helga setur eiginlega talsvert niður fyrir vikið og setja verður spurningarmerki við hans rannsóknir. Standast þær kröfur um vísindaleg vinnubrögð?            


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: