- Advertisement -

Að kenna Reykjavík um er lágkúrulegt

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Þegar Sigurður Hannesson segir að bankarnir séu opnir fyrir að fjármagna nýbyggingar þá var tónninn annar og verri fyrir stuttu síðan. Það tekur síðan tíma að sigla í land eftir ólgusjó.

Seðlabankastjóri er iðinn í tilraunum að koma eigin mistökum yfir á Reykjavíkurborg. Segir að verðhækkanir á fasteignamarkaði séu borginni að kenna. Lóðarskortur sé vandamálið. Undir þetta hefur Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins tekið. Sigurður gekk meira að segja svo langt að segja bankana tilbúna í nánast hvað sem er í þessum efnum. Borgin vísar öllum ásökunum til föðurhúsanna.

Ef við förum fram fyrir byrjunina á heimsfaraldrinum eða aftur til ársins 2019 þá liggur fyrir að efnahagsumsvifin voru þá þegar á hraðri niðurleið. Bæði á Íslandi og erlendis. Þetta sýna opinberar hagtölur glögglega. Fjárfestingaráhætta fór vaxandi. Í ársskýrslu Landsbankans fyrir árið 2019 segir orðrétt „Verulega hefur hægt á hagvexti á árinu 2019 vegna samdráttar í ferðaþjónustu og hefur hagvöxtur jafnvel verið lítils háttar neikvæður eftir kröftugan vöxt síðustu ár. Efnahagsframvinda hér innanlands er háð óvissu um þróun hagvaxtar í heiminum næstu misseri sem birtist nú þegar í hægari vexti alþjóðaviðskipta og iðnaðarframleiðslu. Frekari stigmögnun þeirrar þróunar, umfram það sem nú er gert ráð fyrir, kann að hafa neikvæð áhrif hér á landi“.

Hvernig hagaði Seðlabankinn sér á þessum tíma? Í lok október 2018, eða í miðjum kjaraviðræðum, þá hækkaði bankinn stýrivexti upp í 4,5 prósent. Síðan voru Lífskjarasamningar undirritaðir í apríl 2019 þar sem kveðið var á um vonir um að ná vöxtum í landinu niður. Bankinn lét ekki sitt eftir liggja, en ekki vegna kjarasamninga heldur vegna loðnubrests og minni umsvifa í ferðamennsku. Þetta staðfesta fundargerðir peningastefnunefndar. Lækkaði bankinn því stýrivextina í lok maí 2019. Vondar loðnufréttir og samdráttur í ferðiðnaðinum sem hófst árið 2018 var lækkunarhvatinn. Fjárfestar voru farnir að halda að sér höndum hvað nýfjárfestingar varðar. Bankarnir voru líka komnir á bremsuna.

Þú gætir haft áhuga á þessum

kjavík hægði ekki á markaðnum né olli verðbólgu.

Þrjár vaxtalækkanir  komu til viðbótar fyrir árslok 2019 og enduðu stýrivextir árið í 3 prósentum. Í byrjun febrúar 2020 þá hækkaði Seðlabankinn sveiflujöfnunarauka banka upp í 2 prósent. Þetta er ígildi vaxtahækkunar og sogaði Seðlabankinn þannig 50 milljarða út af markaðnum. Lausafé bankanna minnkaði samsvarandi. Þetta dró úr lánagetu. Hækkun sveiflujöfnunaraukans var vegna neikvæðrar fjármálasveiflu á fjármálamarkaði. Bankarnir voru komnir í þrengri stöðu en áður sem hafði áhrif á byggingafyrirtæki. Lóðaframboð í Reykjavík hægði ekki á markaðnum né olli verðbólgu. Og Reykjavík hægði ekki heldur á heimshagkerfinu þó sumir trúi því.

Síðan kom heimsfaraldurinn og allir muna þá yfirgripsmiklu óvissu sem heltist yfir heimsbyggðina. Um miðjan mars 2020 þá felldi Seðlabankinn allan sveiflujöfnunarauka úr gildi og hlupu 350 milljarðar króna óbeislaðir inn á markaðinn. Þetta var innan við tveimur mánuðum eftir að bankinn jók á sveiflujöfnunin, slík var óvissan. Bankarnir byrjuðu ekki á einni nóttu að reka féð úr sínum dilkum heldur gerðist það í áföngum eftir því sem óvissan hjaðnaði og bólusetning gekk eftir. Borgin var í sömu óvissunni og aðrir enda skyggni vont í allar áttir. Það hefði verið óðs manns æði af borginni að brjóta upp nýjar lóðir eins og enginn væri morgundagurinn á sama tíma og tekjur voru að hrynja. Ef ratarinn er bilaður þá siglir skipstjórinn ekki áfram þar til hann lendir á blindskeri heldur varpar akkerum. Hann bíður síðan  þar til skyggni er viðráðanlegt.

Það er lítill manndómur í seðlabankastjóra að kenna borginni um. Hann hefði betur sett upp fjárgirðingar og haft stýringu á því hvert féð hljóp. Hans eru mistökin og ber Seðlabankinn alla ábyrgð á miklum verðhækkunum á fasteignamarkaði. Þegar Sigurður Hannesson segir að bankarnir séu opnir fyrir að fjármagna nýbyggingar þá var tónninn annar og verri fyrir stuttu síðan. Það tekur síðan tíma að sigla í land eftir ólgusjó. Þrátt fyrir þetta þá eru 3.500 byggingarlóðir tiltækar og bíða þess að áhugasamir byggi á þeim. Gagnrýni Sigurðar er ódýr tækifærismennska.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: